top of page

Kínverjar í meirihluta

Updated: Feb 14, 2019

Kínverska nýárið er stórhátíð í Singapúr. Hefðirnar leggja þeim íbúum landsins sem eru af kínverskum ættum ótal skyldur á herðar og þótt Singapúr sé samfélag margra kynþátta (multi-racial) eru íbúarnir almennt trúir upprunanum. Þannig endurspegla hátíðahöld í landinu oft forna siði ættfeðranna sem sigldu til Suðaustur Asíu í leit að nýjum tækifærum. Og í sögu innflytjendanna má finna skýringar á því hvers vegna kínversk áhrif eru ríkjandi á landsvæði þar sem aðrir kynþættir teljast frumbyggjar.

,,Ef þú ert að velta því fyrir þér hvað þetta sé,” segir singapúrski uppistandarinn Fakkah Fuzz stríðnislega við hvítan Evrópumann í stórum áhorfendahópnum og bendir á sjálfan sig ,,þá áttu Singapúrar víst að líta svona út.” Það er skellihlegið í salnum enda leikur Fakkah Fuzz sér með það sem virðist ekki endilega vera rökrétt á hitabeltiseyju í Suðaustur Asíu, þá staðreynd að Kínverjar eru í meirihluta meðal heimamanna í Singapúr. Sjálfur er Fakkah Fuzz af malajískum uppruna og hægt er að horfa á upptöku af glænýju uppistandi hans á singapúrska Netflix. Hann gerir stólpagrín að sjálfum sér og löndum sínum og hlífir ekki heldur nágrannalöndunum.


Stamford Raffles
Höggmynd af Sir Stamford Raffles er ein af styttum bæjarins.

Raffles-planið


Aðgreining eftir uppruna á sér nokkra sögu í Singapúr og birtist til að mynda á fyrstu skipulagsuppdráttum af svæðinu, skipulagi sem byggði á hugmyndum hins breska Stamford Raffles og lagði grunninn að Singapúr nútímans. Sir Raffles steig á land í Singapúr árið 1918 sem fulltrúi Breska Austur-Indíafélagsins og samdi um að byggja hér upp breska verslunarstöð. Þótt Raffles dveldi sjálfur ekki lengi á staðnum höfðu hugmyndir hans um Singapúr sem ,,umtalsverðan stað að stærð og áhrifum” mikið að segja fyrir framtíðina. Uppdrátturinn, The Plan of the Town of Singapore, birtist árið 1828 og þóttu hugmyndir Raffles nokkuð framsæknar á mælikvarða þess tíma.

Skipulagið gerði ráð fyrir landsvæðum fyrir alla þá mismunandi hópa sem gert var ráð fyrir á staðnum og var ætlað að stuðla að samlyndi í samfélaginu. Nýlenduyfirvöld fengu í sinn hlut stórt land miðsvæðis við Singapúr ánna en þar gátu einstaklingar ekki byggt. Austan þess fengu Evrópumenn og kaupmenn land í sinn hlut og enn austar var gert ráð fyrir hverfi Malaja. Vestan við ánna var gert ráð fyrir kínversku svæði enda voru innflytjendur frá Kína þá þegar fjölmennir. Indverskum innflytjendum var úthlutað svæði upp með ánni en áætlanir Raffles gerðu þar að auki ráð fyrir frekari aðskilnaði þjóðarbrota innan svæðanna enda upprunalönd flestra innflytjendanna stór og margbreytileg, auk þess sem stéttskipting og efnahagur komu við sögu. Gerður var munur á fólki með fasta eða tímabundna búsetu og ekki giltu sömu reglur um farandkaupmenn og kaupmenn sem hér vildu setjast að. Þótt plönin hafi ekki gengið eftir að fullu má enn finna leifar af Raffles-planinu og bæjarhlutar á borð við China Town, Little India og Kampong Glam (Malajahverfi) heilla ferðamenn. Og segja má að Raffles sjálfur sé enn mjög sýnilegur í Singapúr samtímans þar sem götur, torg, skólar, sjúkrahús og hótel bera gjarnan nafn hans.


Rafflesplanið

Sjálfstæðisbarátta


Singapúr og nærliggjandi héruð í Bresku Malaja lutu stjórn breska heimsveldisins fram á miðja 20. öld að undanskyldum nokkrum árum í seinni heimsstyrjöldinni þegar Japanir hertóku landið eins og flest landssvæði Breta í Suðaustur Asíu. Sjálfstæðisbarátta heimamanna hófst á svipuðum tíma og skilaði árangri í nokkrum skrefum á árunum 1948-1967. Árið 1963 sameinuðust nokkur landssvæði undir merkjum Sambandslýðveldisins Malasíu, þar með talin Singapúr. Samstarfið stóð ekki lengi því framtíðarsýn sambandsstjórnarinnar og hugmyndir sjálfstæðissinna í Singapúr fóru ekki saman. Með Lee Kuan Yew, fyrsta forsætisráðherra landsins, fremstan í flokki vildu brautryðjendur í Singapúr stofna samfélag þar sem allir byggju við sömu réttindi óháð uppruna og kynþætti. Annarsstaðar í sambandsríkinu vildu menn aftur á móti gera ráðstafanir til að efla stöðu Malaja í eigin landi sem þrátt fyrir að vera 2/3 hluti íbúa voru mun fátækari en innflytjendur. Slíkar hugmyndir voru seinna útfærðar í kerfi sem veitir innfæddum, svokölluðum bumiputera sem merkir “synir foldarinnar”, ýmis forréttindi framyfir þá sem eiga rætur í öðrum löndum (svo sem Indlandi og Kína) og gekk í gildi í Malasíu árið 1971. Fyrirkomulaginu var ætlað að stuðla að aukinni menntun og hagsæld meðal frumbyggja/innfæddra og hefur verið við lýði æ síðan. Hugmyndir um lögformleg forréttindi áttu fáa fylgismenn í Singapúr þar sem meirihluti fólks var af innflytjendaættum, flest frá Kína. Á blaðamannafundi sem sendur var út bæði í útvarpi og sjónvarpi hinn 9. ágúst árið 1965 skýrði Lee Kuan Yew frá því að Singapúr hefði sagt skilið við sambandsríkið og væri nú sjálfstætt ríki, Lýðveldið Singapúr. Ákvörðunin var kvalafull sagði Lee og í útsendingunni átti hann erfitt með að halda aftur af tárunum: ,,Öll mín fullorðinsár hef ég trúað á samruna og einingu þessara tveggja svæða…við erum tengd landfræðilega og efnahagslega, og frændsemi bindur okkur saman.” En hann talaði kjark í þjóðina þegar hann hélt áfram og sagði: ,,Við erum ekki malajísk þjóð, ekki kínversk þjóð, ekki indversk þjóð. Allir munu geta fundið sinn stað í Singapúr. Sem jafningjar.” Bann við hverskyns mismunun og forrréttindum sem byggja á kynþætti var frá upphafi skjalfest í stjórnarskrá hins nýja lýðveldis.



Fæddur hér


Margir í framvarðasveit Singapúr á þessum tíma tilheyrðu vel stæðum fjölskyldum og voru menntaðir í enskum skólum. Þótt nafn Lee Kuan Yew, fyrsta forsætisráðherrans og “föður” landsins, gefi til kynna kínverskan uppruna var enska hans fyrsta mál og hann nam lögfræði við Oxford háskóla. Lee tilheyrði þeim hópi Kínverja sem oft eru kallaðir Straits Chinese eða Peranakan sem á tungu Malaja þýðir að vera ,,fæddur hér”. Upphaf kínverska áhrifa á svæðinu má rekja allt aftur til 15. aldar þegar kínverskir kaupmenn tóku að setjast að á verslunarstöðum við Malacca-sundið sem tengir Indlandshaf við Suður-Kínahaf. Margir þeirra kvæntust malajakonum og tóku upp suma af siðum og venjum heimamanna. Þegar áhrif Singapúr jukust á tímum Breta fluttu margir perankanar sig þangað og gerðu það gott. En gamlar hefðir frá Kína lifðu áfram í fjölskyldum perankana, ekki síst allkyns tilstand í kringum afhafnir eins og brúðkaup og jarðarfarir.

Kannski má segja að margt af því besta úr kínverskri, malajískri og jafnvel evrópskri menningu bræðist saman í hefðum peranaka og margir þeirra eru afar stoltir af kínverska upprunanum. ,,En svo koma þeir hingað frá Kína og spyrja hvort ég tali kínversku!” segir eldri maður sem ég átti samtal við á litlu safni um peranakamenningu í hverfinu mínu. Hann hljómar dálítið ergilegur og heldur áfram ,,Og þá spyr ég, hvaða kínversku?” Það sé nefnilega ekki bara mandarín-kínverska sem sé kínverska segir hann og lýsir uppruna sínum með stolti. Hann sé af fjórðu kynslóð perankana og segist sannfærður um að vita meira um kínverska menningu en margur sem alist hefur upp í alþýðulýðveldi Mao formanns enda er peranakamenning að hans mati 80% gamlar kínverskar hefðir í bland við 20% áhrif frá malajamenningu. Það má vel vera að eitthvað sé til í þessu hjá manninum því nýlega heyrði ég að það komi mörgum ferðamönnum frá meginlandi Kína á óvart hversu margar kínverskar mállýskur og fornar hefðir lifa enn góðu lífi í Singapúr. Hér tali margir enn mállýskur og stundi siði sem glatast hafa í gamla landinu.

ree
Útilistaverk við Singapúránna minnir á gamla tíma.

Coolies


En ekki voru allir Kínverjar sem sigldu suður á bóginn í leit að betri tækifærum vel stæðir kaupmenn. Flestir sem fluttust til Singapúr í leit að betra lífi, ekki síst á nýlendutímum, voru fátækir, ófaglærðir verkamenn sem á ensku voru uppnefndir coolies. Flestir Singapúrar eru afkomendur þeirra og flestir komu þeir frá suðurhluta Kína. Þótt mörgum sé tamt að líta á Kína sem eina heilsteypta þjóð með eitt tungumál eftir að kommúnistar tóku við stjórnartaumunum þar árið 1949, þá var fólkið sem flutti frá Kína engu að síður af mismunandi uppruna og flutti með sér ólíkar hefðir og tungumál. Flestir í hópi kínverskra innflytjenda í Singapúr komu frá Fujian héraði í suðausturhluta Kína og töluðu Hokkien mállýsku, eða áttu uppruna í Teochew (Chaozhou) sem er í austanverðu Guangdong héraði og töluðu samnefnda mállýsku.


Fjölbreytileiki kínverskra hofa við þær götur sem upprunalega lágu við sjóinn í Singapúr er ágætt dæmi um það hversu ólíkur bakgrunnur innflytjendanna var, en þar voru reist hlið við hlið mismunandi hof fyrir Teochew, Hokkien og Hakka Kínverja. Þar gat aðkomufólkið þakkað guðum sínum fyrir að hafa komist óhult á áfangastað. Við sömu götur risu einnig moskur fyrir múslima og kirkjur fyrir kristna og minna byggingarnar enn í dag á fjölbreyttan uppruna singapúrsku þjóðarinnar.

Nýtt þjóðerni


Þegar Singapúr varð sjálfstætt ríki buðust íbúum landsins ný tækifæri og innflytjendum var gert kleift að setjast að til framtíðar. Húsnæðismálum landsins var komið í lag (sjá umfjöllun okkar hér) og allir fengu singapúrskt ríkisfang. Á þeim rúmu fimmtíu árum sem síðan eru liðin hefur þjóðerni Singapúra fest sig í sessi og singapúrskt vegabréf er það öflugasta í heimi sé mælikvarðinn sá til hversu margra landa viðkomandi getur ferðast án áritunar. Uppruni Singapúra kemur fram á skilríkjum þeirra því hér er enn í gildi kerfi sem flokkar þjóðina eftir kynþætti. MCIO (Malay, Chinese, Indian, Others) er það kallað og eru heimamenn í Singapúr samkvæmt nýjustu tölum 74,3% Kínverjar, 13,4% Malajar, 9% Indverjar og restin svokallaðir “Others” eða aðrir. Til að einfalda málið tekur þjóðernið aðeins mið af uppruna föður(!). Nýlega spurði ég unga konu hvort þetta væri ekki umdeilt, hvað væri til dæmis gert ef um væri að ræða einstæða móður? Jú, hún hélt að í dag væri hægt að gera einhverjar undantekningar ef faðirinn væri ekki þátttakandi í lífi barnsins. (Það er áhugavert að bera þetta saman við veruleikann í kínverska mæðraveldinu sem við fjölluðum um hér).

Nýir Kínverjar


Auk heimamanna býr hér í Singapúr um ein og hálf milljón útlendinga sem hefur ríkisfang í öðrum löndum. Farandverkafólk frá fátækari löndum Asíu eru fjölmennasti hópurinn, meðal annars frá meginlandi Kína. Fólkið getur ekki sest hér að og fær aðeins atvinnuleyfi í skamman tíma. Yfirvöld hafa skapað efnuðu fólki meira svigrúm til að gera Singapúr að heimkynnum sínum enda hefur það í för með sér efnahagslegan ávinning fyrir landið. Fjöldi fólks, ekki síst frá meginlandi Kína, hefur nýtt sér þessa leið á síðustu áratugum. Nýjum kínverskum innflytjendum fjölgar því jafnt og þétt og um þá er oft talað sem ,,nýja Kínverja”.

Stundum er grunnt á því góða milli nýrra Kínverja og heimamanna og í því sambandi má rifja upp tvö fræg atvik. Hið fyrra hefur verið kallað Karrístríðið og hófst með frétt sem birtist í dagblaði árið 2011 um deilur kínverskar fjölskyldu, sem nýlega hafði flust til Singapúr frá Kína, við indversk-singapúrska nágranna en fyrrnefndu fjölskyldunni líkaði ekki karrílyktin sem barst frá íbúð þeirrar síðarnefndu. Deilan endaði í höndum málamiðlara og varð sátt um að indverska fjölskyldan myndi aðeins elda karrí þegar sú kínverska væri ekki heima og að sú kínverska myndi bragða á indverska matnum. En singapúrskur almenningur var ekki sáttur og taldi ótækt að aðkomufólk hefði eitthvað um það að segja hvað heimamenn mættu elda heima hjá sér. Karríréttir eru taldir til þjóðarrétta í Singapúr og landsmenn eru stoltir af þeim mikla fjölbreytileika sem einkennir matargerð landsins. Til að lýsa stuðningi við indversk-singapúrsku fjölskylduna tóku tugþúsundir Singapúra af öllum kynþáttum þátt í átaki sem efnt var til á Facebook undir heitinu Cook A Pot Of Curry. Mun hafa verið eldað karrí á meira en 40 þúsund singapúrskum heimilum þann daginn. Annar atburður sem kom þjóðinni í mikið uppnám er Ferrari atvikið svokallaða en árið 2012 keyrði ungur kínverskur innflytjandi á rauðum Ferrari sportbíl á ofsahraða yfir á rauðu ljósi og hafnaði á leigubifreið með þeim aðleiðingum að þrír létust. Slysið vakti upp í samfélaginu umræður um þann mikla fjölda fólks frá meginlandi Kína sem hafði fengið singapúrskan ríkisborgararétt á skömmum tíma. Fannst mörgum Singapúrum jafnvel nóg komið af aðfluttum Kínverjum sem teldu sig yfir lög og reglur hafnir í skjóli ríkidæmis.

Enska


Þegar Singapúr varð sjálfstætt ríki var helstu tungumálum fólksins í landinu gert jafnt undir höfði og kínverska, malajíska, tamílska og enska eru öll opinber mál. Lögð var áhersla á að allir lærðu ensku og að það yrði tungumálið sem sameinaði hina nýju þjóð. Þjóðsöngurinn er sunginn á malajísku en enska er notuð í skólum og á vinnustöðum og eftir 1980 hefur verið opinber stefna að allir Singapúrar séu tvítyngdir, á ensku og einu af hinum þremur tungumálum landins.

Nokkuð hefur þótt skorta á áhuga nýrra innflytjenda frá Kína að aðlaga sig þessu málumhverfi enda er auðvelt fyrir þá að komast af í Singapúr án ensku þar sem flestir kunna eitthvað fyrir sér í kínversku. En fleira kemur til og augljóslega er mikill menningarmunur á milli Kínverja sem alist hafa upp í alþýðulýðveldinu Kína og kínverskra Singapúra sem eiga rætur í landi þar sem öll áhersla hefur verið á að búa til nýja fjölmenningarlega þjóð sem er ,,ekki kínversk”.

,,Það er ekkert náttúrulögmál að við höldum stöðu okkar sem þjóð margra kynþátta, margra trúarbragða, umburðarlyndis og framfara. Við gerðum þetta að veruleika og við verðum að vernda það, næra það, viðhalda því og við megum aldrei leyfa því að bresta”. Þetta eru orð núverandi forsætisráðherra landsins, Lee Hsien Loong en hann er sonur Lee Kuan Yew. Forsetisráðherrann hefur einnig sagt að þótt mikilsverðar framfarir hafi átt sér stað í Singapúr á liðnum árum í þá átt að skapa þjóð þar sem kynþáttur, tungumál og trúarbrögð skipta ekki máli, sé þjóðin enn ekki komin á endastöð þegar kemur að því að viðurkenna fólk af ólíkum uppruna.

ree

Comments


  • Utanlands á Facebook

Allur réttur áskilinn © 2018 utanlands.is. Keyrt á wix.com

bottom of page