top of page

Blokkarbyggð fyrir heila þjóð

Updated: May 29, 2018

Það virðist ekki mikið vit í því að bera saman blokkarbyggð í Reykjavík og í Singapúr. Þó finnst mér margt hljóma kunnuglega þegar singapúrsk vinkona segir frá æskuheimili sínu í HDB blokk. Heimili hennar var byggt á árunum 1972-1975 í austurhluta Singapúr en á svipuðum tíma flutti ég með fjölskyldu minni inn í glænýja blokk í Breiðholti. Og þótt fjarlægðin á milli Íslands og Singapúr sé mikil virðist hvatinn að framkvæmdunum í báðum tilfellum hafa verið sá sami: vilji yfirvalda til að stuðla að því að sem flestir gætu fest kaup á eigin íbúð.

ree

Borgríkið Singapúr er ekki stórt í ferkílómetrum talið, eða 719 km². Til samanburðar er höfuðborgarsvæðið um 760 km² (1062 km² ef Kjósarhreppur er meðtalinn) sem er aðeins 1.03% af heildarflatarmáli Íslands. Í Reykjavík og nágrenni eru íbúar um 200 þúsund, en í Singapúr um 5,8 milljónir (tæpar 4 milljónir heimamenn og um 2 milljónir útlendingar). Af tölunum má vera ljóst að húsnæðismál í Singapúr þarfnast mikillar skipulagningar og í raun er það svo að rúm 80% singapúrskra ríkisborgara býr í HDB íbúðum sem byggðar eru á vegum hins opinbera.


HDB er skammstöfun fyrir The Housing and Development Board og þykir svo einstakt að hugtakið er skráð í Oxford orðabókina. Saga HDB hefst skömmu áður en Singapúr varð sjálfstætt ríki árið 1965 og á rætur í húsnæðisátaki sem Bretar hófu undir lok nýlendutímans. En baráttu nýlenduherranna gegn húsnæðisskorti miðaði hægt og árið 1960 hafði yfirvöldum aðeins tekist að koma 9% af íbúum nýlendunnar í viðunandi húsnæði. Langflestir landsmenn bjuggu enn við lélegar og oft óheilnæmar aðstæður. Heimamenn tóku málin í sínar hendur og settu HDB verkefnið á laggirnar með það að markmiði að leysa húsnæðisvanda landsins til frambúðar. Verkefnið fór hratt af stað og á innan við þremur árum voru byggðar 21 þúsund íbúðir. Tveimur árum síðar var talan komin upp í 54 þúsund og tæpum tíu árum síðar höfðu risið nægilega margar HDB byggingar til að leysa íbúðarvanda landsmanna.


Lee Kuan Yew var fyrsti forsætisráðherra Singapúr eftir að landið öðlaðist sjálfstæði. Hann var brautryðjandi á mörgum sviðum og hafði áhrif á flest stefnumál, þar með talin húsnæðismálin. Hann lagði kapp á að koma málaflokknum í lag og það með hraði. Skipti miklu sannfæring hans um að betra væri að gefa fólki færi á að eignast húsnæði fremur en að leigja. Hann trúði að það myndi leiða til betri umgengni og umhirðu. Því eru nær allar íbúðir sem byggðar eru á vegum singapúrskra yfirvalda söluíbúðir, en tekið er mið af tekjum og fjölskyldugerð við úthlutun þeirra.


Stjórnvöldum var ekki aðeins umhugað að koma íbúum landsins í nútímalegt húsnæði. HDB kerfið var einnig mikilvægur þáttur í því sem Singapúrar kalla nation building; að byggja upp þjóðfélag í nýju landi. Sameiginleg reynsla af lífinu í HDB, ásamt sterku menntakerfi (og herskyldu karlmanna) hefur þjappað saman fólki með ólíka menningu og uppruna og mótað singapúrska þjóð.

ree

ree

Enn býr mikill meirihluti Singapúra í HDB byggðunum. Árið 1990 voru það nærri 90% heimamanna en sú tala er nú rúmlega 80%. HDB svæðin, bæði ný og gömul, eru vinsæl til búsetu enda byggð upp sem sjálfbær hverfi þar sem almenningssamgöngur, skólar, verslanir, matartorg, heilsugæsla og íþrótta- og tómstundamannvirki eru innan seilingar. Eignarhaldið á íbúðunum er þó ekki eins og við Íslendingar þekkjum því það takmarkast við 99 ár.


Þar sem singapúrska þjóðin er að eldast kann 99 ára reglan að virðast tímasprengja. Fyrir skömmu heimsótti ég safn um sögu HDB og leiðsögumaðurinn, arkitekt í starfi hjá hinu opinbera, sagði að margt í þessum málaflokki væri óleyst og umdeilt. Grunnreglan segir að við lok samningstímans gangi eignin aftur til baka til eiganda byggingalandsins, þ.e. HDB og þar með til ríkisins. Sumir vilja því meina að HDB íbúðir séu í raun leiguíbúðir.


Hér í hverfinu mínu eru stórir HDB kjarnar. Þegar ég kynntist singapúrsku vinkonunni, sem ég minntist á í upphafi pistilsins í Shanghai fyrir nokkrum árum, hafði ég náttúrlega ekki hugmynd um að hún hefði alist upp í slíkri blokk. Og það var ótrúleg tilviljun þegar í ljós kom að æskuheimili hennar er í sömu götu og ég bý núna við í Singapúr. Þegar hún heimsótti mig á nýja staðnum var því tilvalið að rölta með henni um nágrennið. Hún benti mér á staði sem hún átti minningar um, svo sem bókasafnið, pósthúsið, matartorgið, verslunarmiðstöðina og matvörubúðina. Margt er enn við það sama en byggðin hefur stækkað og opnum svæðum fækkað. Nú standa nýjar glæsiblokkir þar sem áður voru skuggsælir garðar þar sem unglingar hverfisins söfnuðust saman undir risavöxnum trjám. Á rölti okkar vinkvennanna komu einnig fram fyndnar staðreyndir eins og sú að ekki má hafa ketti í HDB íbúðum en hundar eru aftur á móti leyfðir. Í flestum HDB byggðum er því mikið um ,,villta” ketti í sameiginlegum rýmum.

ree

Í blokkarbyggðinni þar sem vinkona mín ólst upp eru tæpar átta þúsund íbúðir og íbúarnir um 23 þúsund. Það er svipaður fjöldi og í Breiðholtinu öllu, en þar búa nú um 20 þúsund manns á 7.678 heimilum. Það er því ljóst að umhverfið sem við vinkonurnar ólumst upp við er um margt ólíkt. En það sem við eigum sameiginlegt er að að hafa alist upp í nýjum hverfum, í samfélögum þar sem lögð var áhersla á að jafna möguleika allra til að eignast húsnæði og mennta sig.

Comments


  • Utanlands á Facebook

Allur réttur áskilinn © 2018 utanlands.is. Keyrt á wix.com

bottom of page