top of page

Hótel fyrir fiska


Lýsingar af íburðarmiklum híbýlum milljarðamæringa og stórstjarna komast stundum í fréttir og oft eru risavaxin fiskabúr partur af dýrðinni. Rándýrir skrautfiskar eru táknrænir fyrir hið fullkomna ríkidæmi þar sem engu máli skiptir hvað hlutirnir kosta. Enda er það ekki á færi hvers sem er að fjárfesta í hreinræktuðum skrautfiskum og jafnvel þótt peningar til kaupanna séu nægir, þá er annað mál að koma nógu stóru fiskabúri fyrir á heimilinu. En við þessum vanda hefur verið fundin lausn og í Asíu getur fólk komið fiskunum sínum fyrir á þar til gerðum hótelum.


ree

Það virðist fara vel um litríka karfana, svokallaða koi fiska, sem dvelja í tjörnunum á The Nippon Koi Hotel í Singapúr. Þótt ég sé búin að horfa á fjöldann allan af litskrúðugum körfum í búrum og tjörnum víða um Asíu í gegnum árin veit ég ekki mikið um slíkt fiskeldi. Í raun lítið annað en að fiskarnir eru tákn fyrir gæfu og auðsæld, eftirsótt gæfumerki í tengslum við feng shui og koma ósjaldan fyrir í hefðbundinni myndlist í austanverðri Asíu. Það var því fróðlegt að heimsækja fiskabýlið sem rekur hótelið og hlýða þar á fyrirlestur sérfræðings um upphaf og sögu koi ræktunar. Og upplýsingarnar varpa óneitanlega nýju ljósi á uppátæki ríka og fræga fólksins! (Hér má sem dæmi finna sögu um karfakaup Lady Gaga)


ree

Fiskabýlið er staðsett svolítið fyrir utan þéttustu byggðirnar í Singapúr og í grenndinni glittir jafnvel í upprunalegt landslag hitabeltiseyjunnar. Hingað koma borgarbúar um helgar og heimsækja fiskana sína. Stundum eru fiskarnir fluttir inn í borgina til að taka þátt í gæludýrakeppnum og þá vinnur sá fiskur sem þykir fegurstur. Við inngang Nippon fiskahótelsins má sjá fjölmarga verðlaunagripi sem fiskar frá býlinu hafa unnið til á slíkum mótum.


ree

Í fyrirlestrinum um sögu skrautkarfans, sem haldinn er af þýskri konu, kemur fram að frásagnir af koi sé að finna í fornum kínverskum heimildum. Í upphafi hafi verið um hefðbundna vatnakarfa að ræða, en orðið koi merkir á kínversku villtur karfi. Í máli konunnar kemur fram að ekki sé mikið vitað um það hvernig tegundin breiddist austur til Asíu frá Evrópu og Miðausturlöndum, þar sem hún á uppruna, en talið sé að karfinn hafi verið fluttur á milli staða eins og hver annar varningur á þessum tímum. Margt virðist þó óljóst í koi sögunni þangað til fiskurinn berst til Japan þar sem ræktun hans nær nýjum hæðum á árunum eftir 1830.


Fyrsti rauð-hvíti koi fiskurinn, sem Japanir kalla Kohaku, varð að viðurkenndri tegund árið 1890. Í framhaldi af því voru ræktaðar margar nýjar útgáfur af koi og bera þær allar mismunandi japönsk nöfn. Bláir fiskar heita Asagi, hvítir, gulir og rauðir fiskar með svörtum deplum kallast Bekku og árið 1915 varð til þrílitt afbrigði sem kallast Sanke. Ræktun koi fiska var mjög vinsæl í Japan á þessum tíma, ekki síst eftir að Hirohito keisara voru færðir nokkrir slíkir að gjöf. Fleiri afbrigði hafa komið til sögunnar síðan og til hefur orðið umfangsmikið flokkunarkerfi sem inniheldur yfir tuttugu gerðir af koi sem rétt eins og fyrstu afbrigðin bera japönsk nöfn. Koi fiskarnir eru af mörgum stærðum og gerðum og skýrar reglur gilda um hvaða útlit þykir verðmætast, og þar með væntanlega gæfuríkast fyrir eigandann.


Japan er enn helsta miðstöð koi ræktunar í heiminum en fiskarnir eru einnig aldir annarsstaðar, meðal annars hér í Singapúr. Á Nippon fiskahótelinu áttu verðmætustu fiskarnir þó allir uppruna sinn í Japan, þeir þykja flottastir. Verðmætustu fiskarnir á hótelinu eru metnir á allt að 3000 singapúrdollara, eða sem nemur rúmum 250 þúsund íslenskum krónum. Mánaðarleiga fyrir tjörn á hótelinu er á svipuðu róli. Þessi verð eru langt frá því að vera þau hæstu sem fást fyrir slíka fiska en starfsmanninum sem nefndi þessar tölur við mig þótti greinilega nóg um, enda næsta víst að mánaðarlaun hans sem farandverkamanns í Singapúr ná ekki slíkum upphæðum.


ree

Ekki gista allir koi fiskar á hótelum og oft eru tjarnir með skrautfiskum hluti af hefðbundinni garðlist þar sem fjöldi, litur og gerð fiskanna eru úthugsuð. Þá eru fiskabúr algeng á asískum heimilum en þar sem koi fiskarnir geta verið fyrirferðarmiklir er þá verðmætustu sennilega helst að finna í stórum húsum. Þeir sem búa smærra bregða á ýmis ráð og nýleg singapúrsk frétt segir frá útsjónarsömum manni sem smíðaði búr fyrir karfana sína á útidyratröppunum heima hjá sér. Yfirvöld voru ekki allskostar sátt við uppátækið enda tilheyra tröppurnar ekki íbúð mannsins heldur sameign HDB blokkarinnar. Maðurinn berst nú fyrir því frammi fyrir hverfisráði að fá að halda í búrið og samkvæmt nýjustu fréttum virðist ráðið ætla að vera honum hliðhollt, með þeim fyrirvara þó að staðsetningin standist reglur um brunavarnir.


ree

Comments


  • Utanlands á Facebook

Allur réttur áskilinn © 2018 utanlands.is. Keyrt á wix.com

bottom of page