top of page

Hvar er enska? Hvar er Ameríka? Tungumáladagur í alþjóðlegum skóla.

Enska er ráðandi tungumál í flestum alþjóðlegum skólum heimsins. Börnin mín hafa lengi verið nemendur í slíkum skólum bæði í Kína og hér í Singapúr. Nemendur við núverandi skóla eru frá meira en 70 þjóðlöndum og þótt allir læri og tali saman á ensku eru móðurmál nemenda augljóslega fjölmörg.


Fjölbreytileikanum er gjarnan fagnað í alþjóðlegu umhverfi og þegar ég var fyrir nokkru beðin um að taka þátt í tungumálahátíð fyrir yngri nemendur í skólanum ákvað ég að slá til þótt mínir krakkar séu eldri. Mér fannst mér renna blóðið til skyldunnar þar sem við erum eina íslenska fjölskyldan í skólasamfélaginu.

ree

Þema dagsins var samgöngur og fulltrúar landanna áttu að velja átta orð yfir farartæki eða annað sem tengist umferð og samgöngum í heimalandinu og kynna fyrir nemendum. Mér fannst orðin skip, bíll, flugvél, þyrla, strætó, rúta, reiðhjól og umferðarljós endurspegla íslenskan veruleika ágætlega og prentaði orðin út og skreytti blöðin með fallegum myndum frá Íslandi. Til að lífga upp á básinn og ítreka íslenska sérstöðu prentaði ég líka út íslenska stafrófið og íslenskan fána.


Það var ekki laust við að vottaði fyrir minnimáttarkennd þegar ég kom á svæðið til að setja upp íslensku kynninguna því þá voru fulltrúar Danmerkur mættir og þegar búnir að setja upp huggulegan bás í dönsku fánalitunum, flagga hér og þar og skreyta herlegheitin með víkingaskipum og víkingahjálmum. Augljóslega eru tungumál okkar skyld og ég sá að það gæti orðið erfitt að keppa um athygli við gömlu nýlenduherrana og passaði mig því á að vera ekki of nálægt þeim. Nema að skömmu síðar mættu Svíar til leiks og á svipstundu var líkt og útibú frá IKEA væri risið fyrir framan mig í allri sinni bláu og gulu litadýrð. Ég verð að viðurkenna að mér fannst ekkert verra að Svíarnir féllu skömmu síðar í skuggann af afar fjölmennum og mjög ríkulega skreyttum kínverskum bás sem reis við hliðina á þeim.

Samkeppnin við íslenskuna færðist enn í aukana þegar stórglæsilegar ítalskar konur tóku sér stöðu við hliðina á mér og byrjuðu að skreyta sinn stað með myndum af ítölskum sportbílum. Skömmu seinna byrjuðu krakkarnir að streyma að borðinu hjá þeim, ekki síst litlir strákar, og öll lærðu þau að að kasta kveðjunni chio með bros á vör og segja Ferrari og Lamborghini. Og áttuðu sig kannski á því hvað lífið er allt er miklu léttara og skemmtilegra á ítölsku?


Það var meiri samhljómur hinum megin við mig þar sem ein kona sá um að kynna tyrknesk orð fyrir ungdómnum. Þótt mun fleiri heimsbúar tali tyrknesku en íslensku átti það ekki við á þessum stað og við tengdum strax sem fulltrúar minnihlutans. Á öðrum nálægum básum var aftur á móti enginn skortur á mannskap. Úrdú-mælandi kvennaskari frá Pakistan skemmti sér vel, flestar konurnar uppáklæddar í grænan fánalit landsins, og hópurinn frá Kóreu sannaði að margar hendur vinna létt verk þegar hann á örskammri stundu dreif upp skemmtilegan bás með allskyns þrautum og leikjum. Í verðlaun fengu börnin listilega skreytta, heimagerða origami báta og bíla með kóresku letri. Þetta eldhressa kóreska tívóli varpaði óneitanlega skugga á víkingaþema Dananna á næsta bás. Kannski fundu þeir til smæðar sinnar því þegar leið á daginn buðu Danir mér að fá lánaðan víkingahjálm til að hafa á íslenska básnum.


En leikmunaleysið kom ekki að sök og það var mesta furða hvað íslenskt látleysi dró til sín mörg börn. Ég hafði í það minnsta ekki undan að taka á móti börnum sem vildu læra íslensk orð. Ástæðan kann að vera sú að börnin fengu límmiða í verðlaun fyrir hvert tungumál sem þau spreyttu sig á en látum það liggja á milli hluta. Og vissulega var misjafnt hversu áhugasöm börnin voru. Sum kusu að vera snögg að næla sér í límmiða og völdu að segja orðin bíll og rúta sem greinilega þótti ekki mjög erfitt. Önnur voru æst í að segja umferðarljós og þyrla. Það krafðist meiri útskýringa og tilvísana í íslenska stafrófið og úr því varð stundum smá spjall. Þannig komst ég að því að í það minnsta fjögur börn í þessum alþjóðlega hópi höfðu nýlega heimsótt Ísland með fjölskyldum sínum og ferðast um landið í þyrlum! Sjálf hafði ég séð fyrir mér þyrlur Landhelgisgæslunnar en augljóslega hefur margt breyst á Íslandi með auknum ferðamannafjölda.

Tungumálaáhugi 5-8 ára barna frá öllum heimshornum var skemmtilega einlægur en einna eftirminnilegust fannst mér þó viðbrögð barna sem hafa ensku að móðurmáli, til dæmis strákurinn sem leitaði ráðvilltur til mín þegar hann fann ekki sinn bás. ,,Hvar er enska?” spurði hann og sagði mér að hann væri frá Englandi. ,,Hvar er Ameríka?" hrópaði skömmu síðar aðsópsmikill bandarískur strákur yfir svæðið og fannst greinilega furðulegt að sjá ekki bandaríska fánann. Þetta var svolítið spaugilegt því þótt enska væri töluð allt um kring virtust börnin sem hafa ensku að móðurmáli upplifa sig dálítið utangátta í þessum fjölþjóðlegu aðstæðum. Það getur nefnilega verið svolítið leiðinlegt að tala bara eitt tungumál.

Comments


  • Utanlands á Facebook

Allur réttur áskilinn © 2018 utanlands.is. Keyrt á wix.com

bottom of page