Besti flugvöllur í heimi
- Elsa Ævarsdóttir

- Oct 3, 2018
- 5 min read
Updated: Oct 3, 2018
Ferðalagið hefst oftar en ekki á flugvellinum og það getur verið þreytandi að standa þar í hverri biðröðinni á fætur annarri. Flestir sem hafa ferðast um Keflavíkurflugvöll á undanförnum árum geta staðfest að innritun, vegabréfseftirlit, tollskoðun og borðganga reynir á þolinmæði flugfarþega. Þegar ferðast er um Changi flugvöllinn í Singapúr er biðtími aftur á móti aldrei vandamál og skipulagið á vellinum framúrskarandi. Fyrr á árinu var Changi kosinn besti flugvöllur í heimi sjötta árið í röð og ekki úr vegi að skoða hvað liggur að baki velgengninni.

Það eru alþjóðlegir flugfarþegar sem kjósa flugvöll ársins og hafa verðlaunin, World Airport Awards, verið veitt frá árinu 2000. Flugvöllurinn í Singapúr er sá fyrsti sem tryggir sér verðlaun sem besti flugvöllur í heimi sex ár í röð en áður hafði Hong Kong flugvöllur trónað efst á listanum fimm ár í röð, frá 2001-2005. Alls hefur flugvöllurinn í Singapúr unnið níu sinnum til verðlaunanna. Ásamt Singapúr eru flugvellir í Kóreu, Japan, Hong Kong og Katar í efstu sætum í ár, en aðrir vellir sem njóta velgengni eru í Evrópu: London, Zürich, München og Frankfurt.
Niðurstaðan í ár er byggð á áliti tæpra 14 milljóna flugfarþega. Þátttakendur í könnuninni voru af meira en 100 þjóðernum og ríflega 500 flugvellir víðsvegar um heiminn tóku þátt. Könnunin tók til upplifunar farþeganna á lykilþáttum í þjónustu og starfsemi flugvalla, svo sem innritunar, komu, flugskipta, verslunar, öryggisgæslu, vegabréfseftirlits og brottfara frá hliði.
Sé tekið mið af könnuninni standa þeir 50 þúsund starfsmenn sem starfa á flugvellinum í Singapúr sig greinilega vel í starfi og umhverfið á Changi er allt hið þægilegasta. Ríflega 50 milljónir farþega fara um völlinn ár hvert og miðstöðvar (terminal) á vellinum eru fjórar talsins. Sú fjórða opnaði árið 2017 og uppbygging þeirrar fimmtu er þegar hafin. Árið 2019 er auk þess er stefnt að opnun gimsteinsins svokallaðs, Jewel Changi Airport, en það er risavaxin glerbygging sem mun hýsa þjónustu- og verslunarmiðstöð og tengja saman helstu flugmiðstöðvar vallarsins. Yfirhönnuður gimsteinsins, sem mun blasa við bæði þegar keyrt er á flugvöllinn og einnig úr lofti, er arkitektinn Moshe Safdie, en hann og hans teymi hönnuðu einnig eina frægustu byggingu borgarinnar, Marina Bay Sands.

Gimsteinninn verður án vafa mikilvægt kennileiti fyrir Singapúr í sívaxandi samkeppni við glæsilega risaflugvelli í öðrum löndum Asíu en hingað til hefur Changi flugvöllur þó frekar verið þekktur fyrir að skapa upplifanir og þægilegt umhverfi fyrir farþega en stjörnuarkitektúr. Og sé að marka það sem haft hefur verið eftir forsvarsmönnum vallarsins snúast áherslur í framtíðinni eftir sem áður um vellíðan farþega og bætta þjónustu við gesti. Singapúrflugvöllur er þó ekki aðeins hannaður með flugfarþega í huga heldur er stór hluti hans almenningsrými og rétt eins og í hverri annarri verslunarmiðstöð er þar fjölbreytt úrval veitingastaða, verslana og afþreyingar sem eru öllum opin. Þetta má þó ekki skilja sem svo að Singapúrar ferðist lítið, þvert á móti eru þeir, eins og gjarnan á við um eyþjóðir, almennt mjög ferðaglaðir. Vegabréf þeirra telst raunar fyrsta flokks (ásamt því þýska) samkvæmt svokölluðum Passport Index. Stuðullinn segir til dæmis til um hversu oft, eða sjaldan, þjóðir þurfa að fá vegabréfsáritanir til útlanda. (Ísland er í fimmta flokki ásamt nokkrum öðrum þjóðum)
Samgöngumiðstöðið Singapúr
Eftir að Singapúr varð sjálfstætt ríki árið 1965 var lögð mikil áhersla á uppbyggingu nýrra atvinnuvega. Landið getur ekki treyst á aðrar náttúruauðlindir en góða legu landsins og því lá beint við að byggja upp miðstöð fyrir alþjóðleg viðskipti, fjármagn og samgöngur. Alþjóðlegur flugvöllur með góðar tengingar milli heimsálfa var liður í þeirri framtíðarsýn.
Skipasamgöngur eru órjúfanlegur hluti af sögu svæðisins þar sem nú er Lýðveldið Singapúr. Um aldir hafa kaupskip haft hér viðkomu og á okkar dögum er uppskipunarhöfnin í Singapúr sú önnur stærsta í heimi (sú stærsta er í Shanghai í Kína). Flugsaga landsins hefst hinsvegar fyrir alvöru eftir að landið verður sjálfstætt ríki. Í fyrstu árum sjálfstæðisins var notast við flugvöll sem Bretar byggðu á nýlendutímum en sá völlur náði fljótt hámarksnýtingu. Í stað þess að reyna að stækka hann var ákveðið árið 1977 að skipuleggja heldur frá grunni nýjan flugvöll á landssvæði í nágrenni við þorpið Changi og þaðan dregur flugvöllurinn nafn sitt.
Starfssemi Changi flugvallar hófst formlega árið 1981 og var frá upphafi lögð áhersla á ýmsar áður óþekktar nýjungar. Singapúrar voru fyrstir til að byggja skrúðgarða innan flugstöðvarinnar (orkedíugarður, fiðrildagarður og sólblómagarður eru meðal garða sem finna má á Changi) og nýstárlegt þótti að hægt var að hringja ókeypis símtöl úr símklefum á flugvellinum. Öll rými á flugvellinum voru loftkæld, jafnvel svæðin þar sem leigubílar tóku upp eða skiluðu af sér farþegum. Árið 1991 opnaði önnur miðstöð á flugvellinum og bar með sér frekari nýjungar, svo sem sundlaug fyrir fluggesti á þaki byggingarinnar.

Árið 1997 gerði Singapúr fyrst Asíulanda loftferðasamning við Bandaríkin. Um svipað leyti voru flugfarþegar sem fóru um völlinn orðnir yfir 20 milljónir á ári og haldið var áfram á þeirri braut að skapa upplifanir fyrir gesti. Var til dæmis opnað kvikmyndahús á flugvellinum og einnig íþróttamiðstöð þar er hægt er að spila tennis og fótbolta eða spreyta sig í keilu og klifri. Tækni- og netvæðing vallarins hófst af fullum krafti upp úr aldamótum og árið 2004 gátu gestir á Changi tengst internetinu á yfir 200 svæðum innan flugvallarins. Árið 2008 tók þriðja miðstöð vallarins til starfa og farþegafjöldinn fór í fyrsta sinn yfir 40 milljónir tveimur árum síðar.
Nýjasta flugstöðvarbyggingin, sú fjórða á vellinum, er mjög tæknivædd og sjálfvirkni er áberandi við afgreiðslu og eftirlit. Eftir opnun hennar á síðasta ári getur Changi flugvöllur nú tekið á móti meira en 80 milljónum farþega á ári. En Singapúrum er tamt að hugsa langt fram í tímann og þeir eru kappsamir um að vera áfram samkeppnishæfir í heimsálfu í miklum vexti. Þannig er stefnt að opnun fimmtu miðstöðvarinnar árið 2025 og þá getur völlurinn tekið á móti 135 milljónum farþega á ári. Fimmta flugstöðin verður stærri en allar hinar samanlagt og verður byggð á landfyllingu sem þegar er langt komin. Sumir hafa áhyggjur af því hvernig singapúrska ríkið ætlar að standa undir kostnaði af þessu öllu saman en yfirvöld eru sannfærð um nauðsyn áframhaldandi uppbyggingar til að tryggja að Singapúr gegni áfram hlutverki einnar mikilvægustu samgöngumiðstöðvar í heimi.
Góð skipulagning og góður árangur haldast í hendur á Changi flugvelli. Frá upphafi hefur markmið uppbyggingarinnar í Singapúr verið að skapa þjónustuhöfn þar sem farþegum líður vel og nýjasta tækni og vel þjálfað starfsfólk tryggir að allt virki sem best. Þótt seint verði sagt að það sé sérlega gaman á flugvöllum, ekki síst þegar hugað er að öllum öryggiskröfum nútímans, þá kemst Changi flugvöllur ansi nálægt því að gera flugvallardvölina ánægjulega. Sumir kjósa raunar að taka sér góðan tíma á vellinum enda má innrita sig á Changi allt að sólarhring fyrir brottför. Og flugvöllurinn er svo vinsæll að sögur heyrast af fólki sem innritar sig án þess að fljúga neitt. Þá kaupir fólk ódýra flugmiða í þeim tilgangi að komast inn á svæðin sem eru bara fyrir flugfarþega. Það er reyndar ólöglegt og getur endað með yfirheyrslu. Ein slík saga segir frá manni sem vildi einfaldlega fylgja vinum sínum alla leið að hliði og önnur frá stúlku sem hafði hafði gert sér vonir um að rekast á átrúnaðargoðið sitt, poppstjörnu frá Kóreu, sem var á ferð um völlinn. Þá handsamaði lögreglan einhverju sinni par sem hafði smyglað sér inn með þessum hætti í von um að næla sér í nýjustu útgáfuna af iPhone.






Comments