Blómstrandi bóndarós, gæfa og góðæri.
- Elsa Ævarsdóttir

- Feb 14, 2019
- 4 min read
Nýtt ár er runnið upp samkvæmt kínversku tímatali, ár svínsins að þessu sinni. Nýárshátíðin, eða vorhátíðin eins og hún er einnig kölluð, er stórviðburður í Kína en er einnig haldin hátíðleg víða í Asíu og meðal fólks af kínverskum uppruna um allan heim. Þar sem meirihluti Singapúra á ættir að rekja til Kína er hátíðin fyrirferðarmikil hér í Singapúr. Kínversk tónlist hljómar um allan bæ og litríkar skreytingar í kínverskum anda setja svip sinn á borgina. Bóndarósir í bleiku, rauðu og gulu eru algeng sjón í slíkum skreytingum enda er blómið mikilvæg táknmynd í kínverskri menningu.
Bóndarósinni bregður víða fyrir í kínverskri fagurfræði. Hún er tákn um tign, heiður og auð, en einnig gæfu og kvenlega fegurð. Oft er talað um bóndarósina sem þjóðarblóm Kína en það hefur aldrei verið staðfest opinberlega á valdatíma kommúnista. Blómið heitir mudan (牧丹) á kínversku og talað er um það sem konung allra blóma. Sagan segir að fyrr á tímum hafi bóndarósin þótt svo tignarleg að enginn nema keisarinn hafi mátt njóta fegurðar hennar.

Á kínversku heitir bóndarósin mudan en einnig er oft talað um hana sem konung blómanna eða blóm auðsældar og heiðurs, fuguihua.
Samkvæmt fornum sögum var bóndarósin fyrst kynnt fyrir kínversku keisarahirðinni á tímum hins skammvinna Suiveldis (581-618). Á tímum Tangveldisins (618-907) breiddist hún hratt út og var gefið nafnið mudan sem túlka má sem sem blóm keisarans, þar sem mu stendur fyrir karlkyn og dan fyrir djúprauðan lit (lit keisarans). Það mun hafa verið Wu Zetian (625-705), eina konan sem hefur formlega verið gerð að keisara í sögu Kínaveldis, sem gaf henni nafnið. Eitt vetrarkvöld mun Wu hafa óskað eftir að sjá allar blómategundir í keisaraveldinu í sínum fegursta skrúða. Engin blómstrandi bóndarós fannst og í gremju sinni fyrirskipaði keisaraynjan að allar bóndarósir skyldu fjarlægðar úr keisarahöllinni og fluttar til Luoyang þar sem þær skyldu brenndar. Þrátt fyrir brunann blómstruðu bóndarósirnar um vorið og þótti keisaraynjunni svo mikið til koma að hún gerði bóndarósina að þjóðarblómi í Tangveldinu. Luoyang er enn miðstöð ræktunar á bóndarósum í Kína og í hinni fornu borg er haldin árleg menningarhátíð til heiðurs bóndarósinni.
Í sinni fegurstu mynd er kínverska bóndarósin (paeonia suffruticosa) litrík og vöxtuleg. Hún er af ætt trjáa og runna, ólíkt flestum öðrum bóndarósum sem eru af jurtaætt. Hún vex hægt og bosmamikil blómin endast ekki lengi. Um aldir var bóndarósin ræktuð í görðum keisara og mandarína (fræðimanna) og hún er áberandi í hefðbundnum kínverskum listum þar sem hún er notuð á táknrænan hátt sem merki um tign, auð og heiður. Skorin út í stein skreytir bóndarósin fornar byggingar og um hana hafa verið ort fjöldamörg kvæði. Hún skipar veglegan sess í handverki og myndlist og kínverskir munir sem notaðir eru í daglegu lífi, svo sem vefnaður og postulín, eru gjarnan skreyttir litríkum bóndarósum.
Skömmu áður en síðasta keisaraveldið leið undir lok ríkti á bak við tjöldin keisaraekkjan Cixi. Hún hafði mikið dálæti á bóndarósinni og gerði hana að opinberu blómi Qingveldisins árið 1903. Bóndarósin féll þó í skuggann af litskrúðugum blómum plómutrésins þegar lýðveldissinnar í Kuamintangflokknum komust til valda árið 1928, en rétt eins og bóndarósin hafa blómstrandi greinar plómutrésins lengi verið í miklum metum meðal Kínverja, ekki síst í suðurhluta landsins. Þegar lýðveldisstjórnin flúði til Taívan tæpum tuttugu árum síðar eftir ósigur í baráttunni við kommúnista má segja að hún hafi tekið plómurunnann með sér og enn í dag eru blóm plómutrésins þjóðarblóm í Taívan.
Bóndarósum og blómum plómutrésins er oft fléttað saman í kínverskum nýársskreytingum.
Eftir valdatöku kommúnista árið 1949 var menningararfurinn ekki í hávegum hafður í alþýðulýðveldinu og í menningarbyltingunni sem hófst árið 1966 má segja að reynt hafi verið að tortíma honum með öllu. Ræktun skrautblóma var bönnuð og lystigarðinum í höfuðborginni var breytt í svínabú. En ekki létu allir landsmenn segjast og viðhéldu sínum uppáhaldsblómum, meðal annars með því að lauma þeim inn á milli plantna í matjurtargörðum.
Við opnun landins, þegar Deng Xiaoping varð æðsti valdamaður Kína, vaknaði áhuginn á þjóðarblómi á ný enda eiga flestar þjóðir heims sér opinbert þjóðarblóm sem endurspeglar menningu þeirra og náttúru. Í könnun sem gerð var meðal kínversks almennings árið 1980 kom í ljós að bæði bóndarósin og blóm plómutrjánna voru í mestum metum. Engin niðurstaða fékkst í málið og árið 1994 mun svipuð skoðanakönnun hafa sýnt vilja þjóðarinnar til að gera bóndarósina að þjóðarblómi. Aftur varð lítið um aðgerðir. Um aldamótin reyndu kínversk yfirvöld enn einu sinni að komast að niðurstöðu um þjóðarblómið og kölluðu til nefnd sérfræðinga á sviði vísinda og tækni. Nefndin lagði til að bæði blómin yrðu útnefnd og þjóðarblómin yrðu tvö, bóndarósin til vitnis um forna tíma, og plómublómið sem fulltrúi nútímans. Þótti nefndarmönnum saga Kína of löng og landið of stórt til að eiga aðeins einn fulltrúa í blómaríkinu.
Hvort sem leitað er upplýsinga á netinu eða meðal almennings í Kína er augljóst að margir álíta bóndarósina þjóðarblóm landsins. En ef til vill er ímynd bóndarósarinnar ekki nógu alþýðleg til að hljóta opinbera útnefningu kommúnistaflokksins og því er Kína eitt fárra ríkja í heiminum sem ekki á sér þjóðarblóm. Það má velta því fyrir sér hvort bóndarósin væri flokknum meira að skapi ef saga hennar væri jafn látlaus og íslenska nafngiftin gefur til kynna.

Auglýsing frá verslunarmiðstöð í Singapúr.












Comments