top of page

Ávöxturinn sem enginn vill finna lyktina af

Updated: Oct 3, 2018

Tyggjóbannið í Singapúr er heimsfrægt. Ég man þó ekki eftir að hafa séð hér auglýsingar um bannið. Aftur á móti hanga víða skilti sem sýna að durian ávöxturinn er bannaður. Það á til dæmis við í flugvélum Singapore Airlines, leigubílum, strætisvögnum, neðanjarðarlestum og á mörgum gististöðum. Um leið er sterk lyktin sem leggur frá fjölmörgum durian sölubúðum borgarinnar ótvírætt merki um mikla ást heimamanna á ávextinum.

ree

Durian ávöxturinn er groddalegur í útliti og í raun ótrúlegt að lyktin af aldinkjötinu finnist í gegnum harðgert yfirborðið. Sú er þó raunin og flestum þykir lyktin ásækin. Jafnvel þeir sem eru hrifnir af bragðinu reyna ekki að draga dul á það. Lyktin á það til að loða lengi við og erfitt er að losna við hana í herbergi þar sem ávöxturinn hefur verið borðaður. Sumir ganga svo langt að líkja lyktinni af durian við ælu, óhreina bleyju eða óhreina sokka. Sjálf myndi ég ekki nota svo sterk orð til að lýsa lyktinni en hún er skringilega súr og festist í vitum manns. Lyktin er að minnsta kosti svo slæm að ástæða þykir til að banna durian ávöxtinn í mörgum almenningsrýmum í Singapúr.


ree

Í samanburði við magnaða lyktina þykir durian ávöxturinn fremur bragðdaufur. En Singapúrum þykir bragðið afar gott og borða ekki einungis ávöxtinn sjálfan, heldur stendur þeim einnig til boða mikið úrval af matvöru með hinu einstaka bragði. Ís, drykkir, hunang, kökur og eftirréttir með durianbragði eru til sölu um alla borg og hér er rekinn veitingastaður sem býður meðal annars upp á durian kaffi og durian pizzur og kjúklingabita.


Durian ávöxturinn á uppruna sinn í Suðaustur Asíu og hér er talað er um hann sem konung ávaxtanna í samræmi við harðgert og vígalegt útlitið. Ekki er auðvelt að komast í brjóta sér leið í gegnum ysta lagið en inni í skelinni leynast bátar af ljósgulu ávaxtakjöti sem eru eini æti hluti ávaxtarins. Þeim sem eru að smakka durian í fyrsta sinn er ráðlagt að bragða á honum á meginuppskerutímanum sem er í júlí og ágúst. Þá þykir ávöxturinn ferskastur og bestur. Reyndar er lyktin líka mest þá. Og svo er víst ekki það sama durian og durian; hið svokallaða mao shan wang (konungur konunganna) afbrigði þykir bera af og er þekkt fyrir smjörkennda áferð og sterka lykt.


Þrátt fyrir boð og bönn er lyktin af durian aldrei langt undan í Singapúr. Í íbúðahverfum er óhjákvæmilegt annað en að ganga annað slagið fram hjá durian sölubásum og matvöruverslanir bjóða oft upp á niðurskorið durian með tilheyrandi lykt. Þá getur durian æðið tekið á sig óvæntar myndir og nýlegt tónleika- og menningarhús borgarinnar er gjarnan er uppnefnt durian vegna þess að ytra borð hússins þykir minna á ávöxtinn með sín ávölu form og stálgadda.


ree

ree

Comments


  • Utanlands á Facebook

Allur réttur áskilinn © 2018 utanlands.is. Keyrt á wix.com

bottom of page