Traustvekjandi túrban
- Elsa Ævarsdóttir

- Oct 17, 2017
- 6 min read
Updated: Feb 14, 2019
Hvers vegna eru sumir Indverjar með túrban á höfðinu en aðrir ekki? Ég hafði ekki velt þessu mikið fyrir mér fyrr en ég heimsótti samkomuhús síka hér í Singapúr og komst að því að túrbaninn er ein af táknmyndum síkisma, trúarbragða sem eiga uppruna sinn á norðanverðu Indlandi. Í augum síka er túrbaninn ekki merkingarlaus vafningur, heldur traustvekjandi tákn. Sagan segir að ef ekki næst í lögreglu á Indlandi þyki mörgum nærtækast að leita aðstoðar hjá manni með túrban.

Í þessu sambandi rifjast upp fyrir mér leigubílaferð sem við fjölskyldan fórum í fyrir nokkrum árum á Indlandi. Okkur þótti leigubílstjórinn dálítið dularfullur. Hann var með svipmikinn túrban á höfðinu og sönglaði ritningarorð nær allan tímann sem við vorum í bílnum. Og á rauðu ljósi dregur hann upp hníf og sýnir okkur! Við vitum ekki hvað við eigum að halda, dettur helst í hug að það sé óðs manns æði að vera að þvælast þetta með börnin um götur gamla bæjarins í Delhi.
Uppruni síkisma og Hin fimm K
Til að bera kennsl á síka þarf maður að þekkja hin fimm K, sem eru Kesh (óskorið hár), Kangha (kambur), Kara (armband), Kachera (nærbuxur) og Kirpan (rýtingur). Túrbaninum er vafið um sítt hárið (sanntrúaðir síkar skera ekki hár sitt og skegg alla ævi), kamburinn er til áminningar um góða líkamshirðu, látlaust armbandið minnir á mikilvægi góðvildar, nærbuxurnar (sem menn fara aldrei úr) á þýðingu þess að vera ávallt viðbúinn og hnífurinn á skyldu síka til að vernda þá sem eru í háska. Við fyrstu sýn virðist furðulegt að bera þessa táknrænu hluti á sér alla daga en skýringar má finna í sögu og uppruna síkisma í Punjab héraði.
Allir eru velkomnir í samkomuhús síka, sem kölluð eru Gurdwara, og því til áréttingar hafa hofin ávallt fjórar inngöngudyr, eina á hverri húshlið. Gurdwara Sahib Silat Road er eitt af sjö síkahofum í Singapúr og þegar ég heimsæki hofið er mér ásamt fleiri gestum vísað inn í herbergi þar sem fram fer stutt kynning um starfið í hofinu. Um fræðsluna sér ungur síki frá Pakistan sem hefur starfað í singapúrska hofinu í þrjú ár. Hann segir frá uppruna og sögu trúarbragðanna í Punjab héraði (sem tilheyrir nú bæði Indlandi og Pakistan) og helstu einkennum síkismans. Í fljótu bragði heyrist mér að upphafsmaður síkisma, Guru Nanak Dev (1469-1539), hafi haft óbeit á prjáli, flóknum átrúnaði og misskiptingu meðal manna (hann hafnaði stéttakerfi Hindúa).
Fyrsti gúrúinn, og þeir níu sem fylgdu í kjölfarið, mótuðu síkismann allt til ársins 1708 þegar hin heilaga bók, Guru Granth Sahib, (stundum kölluð Hinn eilífi gúru), leit dagsins ljós. Síkar fylgja kenningum hinnar heilögru ritningar og trúa á einn almáttugan guð sem er allstaðar. Samkvæmt hugmyndafræði síka er mikilvægt að sjá fyrir sér með heiðarlegri vinnu, deila með þeim sem minna mega sín og nýta hæfileika sína til að efla samfélagið. Þá er mikilvægt að halda hugarró og gleyma ekki guði. Í síkisma er ekki gerður greinarmunur á fólki eftir stétt eða stöðu og þar sem hefðbundin indversk eftirnöfn gefa stétt til kynna eru ættarnöfn síka aðeins tvö. Karlarnir heita Singh, sem þýðir ljón (eða ljónshjarta) og konunar Kaur, sem merkir prinsessa.

Samanborið við skrautleg hindúahofin og tilkomumiklar moskurnar sem margir tengja við Austurlönd eru samkomustaðir síka tiltölulega látlausir. Hér eru engin líkneski sjáanleg enda boðar síkismi að ekki eigi að vanvirða guð með því að búa til af honum myndir og tilbiðja þær. Helgasti staður síka þykir þó stórbrotinn en það er Gullna hofið (Sri Harmandir Sahib) í borginni Amritsar nærri landamærum Indlands og Pakistan. Þar blandast saman á einstakan hátt mismunandi byggingarhefðir hindúa og múslíma. Svæðið er risavaxið enda eru daglegir gestir þar um 100 þúsund. Allir eru jafnir þegar þeir koma í Gullna hofið og allir eru velkomnir. Ekki er ólíklegt að meðal gestanna megi finna síka frá öðrum heimshlutum, en um 250 þúsund síkar búa í Bandaríkjunum og rúm 400 þúsund á Bretlandseyjum. Síkar hafa einnig sest að víða á meginlandi Evrópu, þar af 60-70 þúsund á Ítalíu. En flesta síka utan Indlands er að finna í Kanada þar sem fjöldi þeirra er um hálf milljón.
Varðmenn og verndarar
Síkisminn var í mótun þegar Mógúlveldið (1526-1857) lagðist í hernað á landsvæðum sem tilheyrðu Indverjum. Leið Mógúla að landvinningum í suðri lá í gegnum Punjab héraðið og í þessu ófriðsamlega umhverfi festir síkisminn sig í sessi, bæði sem veraldlegt vald og trúarbrögð. Stofnun Khalsa reglunnar árið 1699 markar tímamót í sögu síka en upphafsmaður hennar er Guru Gobind Singh sem var tíundi, og jafnframt síðasti lifandi gúrúinn. Khalsa þýðir hreinn eða tær og þeir sem kusu að helga sig reglunni skuldbundu sig til að vernda og gæta þeirra kúguðu. Liðsmanni Khalsa bar að vera góður sonur, eiginmaður og foreldri en umfram allt þurfti hann að vera tilbúinn til að fórna öllu fyrir sannfæringu sína. Gerðar voru kröfur um ákveðið hátterni og útlit þeirra sem vígðust inn í regluna, Hin fimm K komu til sögunnar og ennfremur tók bann við neyslu tóbaks, áfengis og kjöts gildi fyrir ræktarsama síka.
Rúmum hundrað árum eftir stofnun Khalsa reglunnar var Ranjit Singh krýndur æðsti leiðtogi í veldi sem kennt er við síka og teygði anga sína langt út fyrir Punjab hérað. Þótt mikill meirihluti íbúanna á svæðinu væru múslímar, og fjölmargir aðrir hindúar, voru það síkar sem voru við stjórnvölinn í höfuðborginni, sem þá var Lahore. En þegar hér er komið við sögu er breski heimsveldisherinn er ekki langt undan og skömmu eftir fráfall Ranjit Singh árið 1839 ná Bretar yfirráðum í Punjab. Þótt her síka hafi tapað í stríðinu við breska heimsveldið áttuðu Bretarnir sig vel á styrk síkahermanna og sóttust eftir að fá þá í sína þjónustu. Þannig urðu síkar fjölmennir í heimsveldisher Breta og gengdu þar mikilvægu hlutverki allt fram yfir seinni heimsstyrjöld. Og síkar voru ekki eingöngu eftirsóttir sem hermenn, heldur einnig sem löggæslumenn og lífverðir í hinum fjölmörgu nýlendum Breta, meðal annars hér í Singapúr.

Yfir gröf og dauða. Í Singapúr störfuðu síkar ekki aðeins fyrir Evrópumenn, þeir voru einnig í þjónustu efnaðra Kínverja. Þannig er einstakt að sjá höggmyndir af síkum sem vaka yfir ríkmannlegum leiðum í gamla kínverska kirkjugarðinum í Singapúr. Slíkt hefur aðeins fundist hér í Singapúr og í Shanghai í Kína en á báðum stöðum áttu margir Kínverjar mikið undir sér á yfirráðatímum Breta og annarra Evrópumanna.
Veisla á hverjum degi
Þegar gestahópurinn hefur skoðað sig um í fremur hversdagslegu hofinu við Sahib Silat Road bjóða gestgjafarnir til hádegisverðar í matsal söfnuðarins. Í salnum er fólk á öllum aldri og mikið er um að vera í opnu eldhúsi þar sem sjálfboðaliðar reiða fram máltíðir þrisvar sinnum á dag. Í risastórum pottum eru elduð hrísgrjón og grænmetiskássur og margar hendur hamast við að baka brauð. Maturinn er borinn fram á stálbökkum þar sem kássa, grjón, jógúrt og brauð fá hvert sitt hólf. Við erum gestir í því sem síkar kalla Langar. Í því felst samvera yfir mat, en í síkahofum er boðið upp á ókeypis máltíðir fyrir alla gesti, óháð trú, stétt, kyni, efnahagslegri stöðu eða þjóðerni. Hver sem er getur komið inn og fengið að borða.

Síkismi er meðal fimm útbreiddustu trúarbragða heims en ekki fylgja allir síkar Hinum fimm K. Það hefur aldrei verið markmið síka að snúa öðrum til sinnar trúar og í stað þess að stunda trúboð hvetja síkar aðra til að vera góðir í því sem þeir trúa á og hafa gott hjartalag. Til þess að vera sannur síki er mikilvægast að fylgja þeirri grundvallarreglu að vilja láta gott af sér leiða. Túrbaninn er merki um góðan ásetning og gott að hugsa til þess þegar síkar verða á vegi manns.*
*Þess má geta að síkar eru ekki einir um að nota túrban. Þótt vefjahöttur múslima sé ólíkur þeim sem síkar nota er þeim oft ruglað saman. Þá er því miður oft stutt í fordóma. Margir síkar urðu fyrir ofbeldi af hálfu almennra borgara í Bandaríkjunum eftir hryðjuverka-árásirnar í september árið 2001. Settu margir samasemmerki á milli Osama bin Laden og túrbana.
*Heimsókn Justin Trudeau, forsætisráðherra Kanada, til Indlands í febrúar 2018 hefur rifjað upp atburði sem áttu sér stað fyrir nokkrum áratugum og tengjast sjálfstæðisbaráttu síka sem hafa viljað aðskilnað frá Indlandi. Árið 1984 réðist indverski stjórnarherinn inn í hið heilaga hof síka, Gullna hofið, að sögn í leit að öfgamönnum. Tveir síkar sem voru lífverðir Indiru Gandhi, sem þá var forsætisráðherra Indlands, réðu hana af dögum í kjölfarið. Aðskilnaðarsinnar úr röðum síka voru aftur á ferð ári síðar þegar farþegaþota frá Air India var sprengd í loft upp í Toronto í Kanada og yfir 300 manns létu lífið. Málið olli miklum deilum meðal Indverja um allan heim og er mörgum á Indlandi enn ofarlega í huga.




Comments