top of page

Þær eru klárar þessar krákur

Updated: Oct 3, 2018

Krummi krunkar úti og Krummi svaf í klettagjá eru lög sem ég hef sungið oftar en ég hef tölu á eftir að ég flutti hingað til Kaliforníu. Í göngutúrum með barnabörnin syngjum við saman þegar við sjáum krákur eða krumma og þær fyrrnefndu eru hér út um allt. Þú heyrir „krá krá“ hvert sem þú ferð í Kísildalnum. Mér lék forvitni á að vita hvort þessi mikli fjöldi væri eitthvað sem ég, útlendingurinn, tæki bara eftir eða hvort þetta væri eitthvað óvenjulegt.


Eftir leit á netinu komst ég að því ég er alls ekki sú eina sem hef veitt þessu athygli og að krákum hefur heldur betur fjölgað hér á svæðinu. Þessa fjölgun má sjá á tölum frá Audubon náttúrufræðisamtökunum sem standa fyrir árlegri fuglatalningu víðs vegar um landið. Sama þróun hefur átt sér stað á flóasvæðinu öllu og raunar um öll Bandaríkin þar sem krákur hafa verið að flykkjast í bæi og borgir.


Margar tegundir eru til af krákum og hér er ameríska krákan algengust. Krákur eru ekki hluti af íslensku fuglaflórunni en eitthvað er þó um flækinga. Krákur eru skyldar hrafninum, þær eru mjög líkar honum en minni og fíngerðari. Þær hafa, rétt eins og hrafninn, meiri hæfileika til að læra en aðrir fuglar. Samkvæmt grein á Vísindavefnum hefur tekist að kenna krákum að telja upp í þrjá eða fjóra og þeim hefur verið kennt að „tala.“ Ég hef lesið sögur af krákum hér sem hafa lært að láta bíla keyra yfir hnetur og svo gætt sér á innihaldinu og í sumum sögunum fylgir að þær nýti sér umferðaljós til að koma hnetunum fyrir, þær bíði eftir rauðu ljósi.

ree

John Marzluff er náttúrufræðingur við Washington háskóla í Seattle sem hefur sérhæft sig í krákum og þegar fjallað er um krákur og hrafna í fjölmiðlum hér er gjarnan tekið viðtal við hann eða vitnað til hans rannsókna. Marzluff segir að krákurnar fylgist vel með okkur mönnunum og geti þekkt fólk í sundur. Sá sem ætlar sér að fóðra þær verði að vera búinn undir miklar vinsældir. Þær séu einnig langræknar og geri menn á hlut þeirra gleymist það seint. Í einni rannsókninni sýndu niðurstöður að krákur skipta mönnum í hópa; þá sem eru hjálplegir, þá sem hætta stafar af og svo þá sem engu máli skipta.


Krákur para sig yfirleitt fyrir lífstíð og pörin vinna saman að hreiðurgerð og fá stundum hjálp frá ungum sínum sem ekki eru farnir að heiman, en það tekur tvö til þrjú ár fyrir krákur að verða kynþroska. Hreiðrin eru oftast upp í trjám og yfirleitt eru eggin um 5 til 6 og kvenfuglinn sér um að unga þeim út á meðan karlinn ber í hana fæðu. Utan varptímans safnast krákur saman í stóra hópa á ákveðnum náttstað og hér er stundum talað um „a murder of crows“ þegar vísað er til þessara hópa. Það kemur líklega til af því að krákur hafa gjarnan verið taldar illur fyrirboði og tengdar dauða í þjóðsögum rétt eins og hrafninn í íslensku þjóðsögunum.

ree

Krákur eru alætur og gæða sér t.d. á alls konar pöddum, korni, fræjum og eggjum annarra fugla. Þær eru úrræðagóðar og líklegasta skýringin á fjölgun þeirra í borgum og bæjum er að þar hafa þær nóg að bíta og brenna. Þær eru klárar þessar krákur og flykkjast þangað sem tækifærin eru rétt eins og við mennirnir. Ég þarf því líklega að rifja upp fleiri krummalög til að syngja fyrir ungu kynslóðina því mér skilst að krákurnar séu komnar til að vera.

Comments


  • Utanlands á Facebook

Allur réttur áskilinn © 2018 utanlands.is. Keyrt á wix.com

bottom of page