Dalurinn sem fyllir hjartað sælu
- Sigríður Sigurðardóttir

- Jan 14, 2018
- 4 min read
Updated: Oct 3, 2018
Ég ólst upp við sögur um dalalíf. Faðir minn sagði gjarnan sögur af lífinu í dalnum sínum, Fnjóskadal, þar sem hann ólst upp í torfbæ. Nú bý ég í fyrsta skipti í dal, Santa Clara dalnum í Norður Kaliforníu, sem í daglegu tali er kallaður Silicon Valley eða Kísildalurinn þó að það svæði nái í raun út fyrir dalinn sjálfan. Mér lék forvitni á að vita hvernig það kom til að þessi fallegi dalur varð að mestu tæknimiðstöð heimsins. Ég lagðist því í rannsóknir og ætla að deilda með ykkur í örstuttu máli því sem ég komst að.
Santa Clara dalurinn, við sunnanverðan San Francisco flóann, var áður fyrr gróðursælt landbúnaðarsvæði, með kúabúum og nautgriparækt og síðar voru þar ræktuð blóm og ávextir, aðallega plómur. Dalurinn, með sínu milda veðurfari og blómstrandi ávaxtatrjám hvert sem litið var, var í þá daga kallaður dalurinn sem fyllir hjartað sælu eða „The valley of heart´s delight.” Nú er dalurinn samfelld byggð og það á raunar við um flóasvæðið allt. Stærsta borgin í Kísildal er San Jose en þar eru einnig smærri bæir eins og Palo Alto, Sunnyvale og Mountain View, en um tvær milljónir manna búa í Santa Clara sýslu. Nafnið Kísildalurinn festist við svæðið upp úr 1970 er það birtist í greinum blaðamannsins Hoefler um tækniþróunina í dalnum og er svæðið í dag þekkt um allan heim undir því nafni.

Segja má að helstu áhrifavaldar í þróun Kísildalsins hafi verið þrír; Stanfordháskóli, uppgötvun og framleiðsla smárans (transistor) og breyttur aðgangur að áhættufjármagni. Þó að mestu breytingarnar hæfust ekki fyrr en í kringum heimstyrjöldina síðari var jarðvegurinn fyrir rannsóknir og nýbreytni á svæðinu frjór fyrir þann tíma, t.d. var þar mikil frumkvöðlastarfsemi á sviði útvarpsbylgna, en ein fyrsta útvarpsstöð Bandaríkjanna var stofnuð í San Jose og rannsóknir stundaðar í flugiðnaði í kringum herflugvöllinn við Moffett Field. Það var því hefð fyrir rannsóknum í Santa Clara dalnum og þær höfðu dregið að sér vel menntað fólk.
Á árunum fyrir og eftir seinni heimstyrjöldina fór Stanfordháskóli markvisst að ýta undir frumkvöðlastarfsemi á heimaslóðum í þeim tilgangi að halda útskrifuðum nemendum á svæðinu. Maðurinn sem átti hvað stærstan þátt í því var Frederick Terman en hann hefur oft verið kallaður faðir Kísildalsins. Hann var kennari við Stanford en hafði í stríðinu stýrt ratsjárrannsóknum við Harvard. Hann sá fyrir sér að Stanford gæti fest sig í sessi sem aðal rannsóknarháskólinn á Vesturströndinni líkt og Harvard hafði gert á Austurströndinni. Hann varð deildarforseti verkfræðideildar Stanford eftir stríðið og honum tókst að fá með sér hæfileikafólk úr Harvard með því að tryggja fjármögnun verkefna sem áttu eftir að styrkja stöðu háskólans í tæknigreinum. Terman hvatti samstarfsmenn og nemendur eindregið til að hrinda hugmyndum sínum í framkvæmd, útvegaði fjármagn og styrki og stóð fyrir stofnun Stanford Research Park, þar sem einkafyrirtæki sem voru framarlega í tæknigeirunum komu sér fyrir, þar á meðal Lockheed, Fairchild, Xerox og General Electrics. Hewlett-Packard, sem var stofnað af tveimur nemendum Terman á kreppuárunum, flutti svo síðar inn á svæðið og var þá stærsti tölvuframleiðandi í heiminum. Alla tíð síðan hefur Stanford tekist vel að brúa bilið á milli skólans og vinnumarkaðarins þar sem frumkvöðlaandinn hefur verið ráðandi og tengsl skólans og starfseminnar í dalnum hafa alltaf verið sterk. Fleiri háskólar á flóasvæðinu, svo sem Kaliforníuháskóli í Berkeley hafa einnig lagt sitt af mörkum.
William Shockley var einnig mikill áhrifavaldur í þróun Kísildalsins. Hann fékk ásamt samstarfsmönnum sínum Nóbelsverðlaun fyrir rannsóknir á hálfleiðurum þegar þeir uppgötvuðu smárann, grunneininguna í öllum nútímarafeindabúnaði. Hann var alinn upp í Palo Alto og árið 1955 stofnaði hann fyrirtæki í Mountain View til að vera nær aldraðri móður sinni. Fyrirtækið hét Shockley Semiconductor Laboratory þar sem hann hóf framleiðslu á smárum, sem búnir voru til úr kísiflögum. Shockley var ekki auðveldur í samskiptum og var t.d. yfirgengilega tortrygginn gagnvart starfsmönnum sínum enda fór það svo að einungis um ári eftir stofnun fyrirtækisins yfirgáfu átta lykilstarfsmenn það og stofnuðu annað fyrirtæki, Fairchild Semicondoctor. Margir þessara manna, sem Shockley kallaði svikararana átta, áttu eftir að koma að stofnun fleiri fyrirtækja síðar og má þar nefna Intel, AMD, Nividia og Kleiner Perkins. Fairchild varð því útungunarvél fyrir fjölda annarra fyrirtækja.
Lítið gerist án fjármagns og bættur aðgangur að áhættufjármagni var einmitt þriðji áhrifavaldurinn að þróuninni í Kísildalnum. Árið 1958 voru sett lög í Bandaríkjunum sem gerðu ríkisstofnunninni SBA (Small Buisness Administration) kleift að gefa út leyfi til lítilla fjárfestingarfyrirtækja þess efnis að þau gætu fjárfest í nýsköpunarfyrirtækjum. Tilgangur stjórnvalda var að styrkja lítil fyrirtæki svo þau gætu stækkað og nútímavæðst, í þeim tilgangi að bæta og örva fjárhag landsins. Fairchild er talið vera fyrsta fyrirtækið sem naut góðs af þessu. Fjárfestingarnar urðu fljótt arðbærar og fyrirtækjunum við Sand Hill Road, miðstöð fjármálafyrirtækjanna, fjölgaði hratt.
Að sjálfsögðu spiluðu fleiri þættir inn í þróunina í Kísildal en þessir þrír og má þar nefna sambland af samkeppnis- og samstarfsanda sem margir segja að einkenni fyrirtækin í dalnum og margir nefna að afslappað andrúmslofið í Kaliforníuríki hafi gert þetta allt saman mögulegt. Rýmkun á innflytjendalögum hafði einnig sitt að segja en um það er hægt að skrifa sérstaka grein.
Til að gera langa sögu stutta þá hélt tækniþróunin áfram, fyrirtæki voru stofnuð sem bæði löðuðu að sér hæft fólk og þjálfuðu starfsmenn sem seinna stofnuðu önnur fyrirtæki og þannig óx og dafnaði tækniiðnaðurinn á svæðinu. Í byrjun 8. áratugarins voru á svæðinu mörg fyrirtæki sem framleiddu hálfleiðara, tölvufyrirtæki sem notuðu afurðir þeirra og hugbúnaðarfyrirtæki sem þjónuðu báðum aðilum og vöxturinn var að mestu fjármagnaður af áhættufjármagni frá blómstrandi fjármálafyrirtækjum.
Í dag eru flest af þekktustu tæknifyrirtækjum í heimi með höfuðstöðvar í Kísildal og má þar nefna Apple, Google, Facebook, Cisco, Adobe, Intel, Nvidia, Oracle og Yahoo. Hér að neðan má sjá myndir af nýjum höfuðstöðvum Apple í dalnum miðjum.

Við hjónin kunnum vel við okkur hér í Santa Clara dal, rétt eins og við elskum að fara í kyrrðina og fegurðina í Fnjóskadal. Við gerðum okkur sérstaka ferð þangað þegar við vorum á Íslandi fyrir nokkrum árum til að taka myndir sem við gætum stækkað og haft fyrir augunum hvar sem við byggjum í heiminum. Núna horfum við á Fnjóskadalinn í stofunni okkar hér í Kísildal og það fyllir hjartað sælu rétt eins og Santa Clara dalurinn gerði forðum og gerir raunar enn því þrátt fyrir að líf mitt hér sé eins ólíkt sögunum sem ég ólst upp við og hugsast getur þá er nálægðin við náttúruna mikil og fegurðin allt um kring.




Comments