Brúin sem endast mun að eilífu
- Sigríður Sigurðardóttir

- Jan 26, 2018
- 4 min read
Updated: Oct 3, 2018

Ég þreytist aldrei á að virða Golden Gate brúnna fyrir mér. Ég hef engan sérstakan áhuga á brúm eða hönnun þeirra en þessi brú er algerlega heillandi, svo falleg í einfaldleika sínum og fellur einstaklega vel inn í landslagið við San Francisco flóann. Brúin þótti á sínum tíma tæknilegt afrek, hún var fyrstu áratugina lengsta hengibrú í heimi og var auk þess byggð við afar erfiðar aðstæður þar sem vindasamt er, straumþungt og þoka algeng. Efnahagslegar aðstæður voru heldur ekki hagstæðar, kreppuástand og heimsstyrjöld í sjónmáli. En þrátt fyrir ýmsa erfiðleika var brúin opnuð með pompi og prakt árið 1937 en smíðin sjálf tók fjögur ár. Yfirverkfræðingnum, Joseph Strauss, var hampað sem manninum sem byggði brúnna og í heiðursskyni voru nöfn þeirra sem áttu hvað mestan þátt í smíðinni letruð á sérstakt skilti við suðurenda brúarinnar, það er að segja nöfn allra nema eins. Nafn mannsins sem hannaði brúnna, Charles Ellis, var þar hvergi að finna og það var ekki fyrr en 75 árum síðar sem það var leiðrétt.
Joseph Strauss var fæddur í Cincinnati og hafði numið þar verkfræði. Hann hafði heillast af Cincinnati-Covington brúnni, lengstu hengibrú Bandaríkjanna á sínum tíma, þegar hann lá í rúmi sínu og jafnaði sig eftir fótboltameiðsli og brúin blasti við út um gluggann. Strauss, sem var af listafólki kominn, var einnig ljóðskáld og sá í þeirri brú einhvers konar ljóðræna fegurð í bland við verkfræðileg afrek. Sagt er að þar hafi örlög hans verið ráðin. Hann stofnaði fyrirtæki sem brátt varð leiðandi í smíði vængbrúa í Bandaríkjunum og skapaði sér nafn á því sviði sem metnaðarfullur frumkvöðull. Metnaður hans virðist hafa verið meiri en almennt gerist og þörfin fyrir að vinna afrek, skilja eitthvað eftir sig sterk.
Strauss komst í kynni við borgarverkfræðing San Francisco á heimsýningunni í borginni árið 1915 en sá var að leita eftir tilboðum í hönnun á brú yfir Golden Gate sundið, frá San Francisco yfir til Marinsýslu, þangað sem borgarbúar ferðuðust gjarnan um helgar og í fríum. Strauss sá strax að að þarna væri tækifæri lífs síns komið og hann virðist hafa einsett sér að þessa brú skyldi hann byggja. Hann setti fram tilllögu að brú árið 1921 sem var einhvers konar blanda af væng- og hengibrú. Mörgum þótti brúin ljót og var talað um að hún líktist mest rottugildru á hvolfi.

(Mynd tekin af http://goldengatebridge.org/research/ConceptforaBridge.php)
Þrátt fyrir þessa umdeildu teikningu var Strauss gerður formlega að yfirverkfræðingi brúarinnar árið 1929. Hann hafði þá unnið markvisst að því að brúin hans yrði byggð og beitt til þess ýmsum brögðum. Strauss var sannfærandi og kraftmikill og gerði það sem gera þurfti til að fjármagna verkið og undirbúa jarðveginn bæði pólitískt og meðal almennings. Hann hafði einnig styrkt tillögu sína með ráðgjöf frá helstu sérfræðingum á sviðinu. Um miðjan þriðja áratuginn kom Leon Moisseiff, einn fremsti brúarverkfræðingur landsins og einn af ráðgjöfunum sem Strauss hafði leitað til, fram með nýja tillögu að hengibrú og gerði í leiðinni athugasemdir við gömlu teikninguna í sérstakri skýrslu sem gefin var út. Þrátt fyrir það hélt Strauss sínu striki og hvikaði hvergi frá sinni tillögu.
Enginn veit nákvæmlega hvenær það gerðist, en loks þegar búið var að ráða Strauss formlega og skipa sérfræðinefnd um verkið skipti hann um skoðun og fór að ráðum sérfræðinganna, nýja brúin yrði hengibrú. Í bók sinni um Golden Gate svarar Kevin Starr sagnfræðingur spurningunni um hvernig það gerðist að ljóta rottugildran á hvolfi varð að verkfræðilegu listaverki á þá leið að þarna hafi kristallast helstu kostir og gallar Joseph Strauss. Hann réð til starfa hæfustu menn landsins og þrátt fyrir að það hafi tekið langan tíma, þá hlustaði hann á ráðleggingar þeirra og tillögur á endanum. Vandinn var bara sá að hann gat ekki unnt þeim því að fá það hrós sem þeir áttu skilið og eins og tíminn átti eftir að leiða í ljós, fjarlægði nafn eins þessara manna vísvitandi af spjöldum sögunnar.
Árið 1921 réð Strauss Charles Ellis til starfa, en hann hafði áður verið prófessor í verkfræði við Háskólann í Illinois. Ellis varð fljótt yfirmaður Golden Gate verkefnisins. Hann var mikill stærðfræðingur, hógvær maður sem hafði áhuga á sagnfræði og klassískum bókmenntum og las forngrísku sér til ánægju. Ellis sá um alla útreikninga og hönnun brúarinnar, með aðstoð Moisseiff og fleiri ráðgjafa. Sagan segir að Ellis hafi setið stöðugt við útreikninga og ekki getað hætt, sjálfsagt blundaði í honum fullkomnunarárátta enda var hann þarna að vinna verkfræðilegt afrek. Strauss þótti verkið ganga seint, hann hafði áhyggjur af seinkunum og sektum og rak Ellis árið 1931 í miðri kreppunni. Hann var atvinnulaus í langan tíma en þar sem hann hafði stöðugar áhyggjur af hönnuninni eyddi hann miklum tíma í útreikninga þrátt fyrir að hann væri ekki lengur að vinna við verkið. Ellis varð síðar prófessor í byggingaverkfræði við Purdue háskólann en lést árið 1949, líklega án þess að hafa nokkurn tíma séð brúna fullbúna nema í huga sér.
Auk Ellis lögðu allir þeir sem fengu að vera með á áðurnefndu skilti sitt af mörkum til þess að gera Golden Gate brúnna að því meistaraverki sem hún er. Einn af þeim var arkitektinn Morrow en hann á heiðurinn af Art Deco útlitinu og rauða litnum. Rétt eins og með rottugildruteikninguna komu ýmsar skrýtnar tillögur fram varðandi litinn og t.d. vildi herinn hafa hana röndótta til þess að hún sæist sem best. Þrátt fyrir allt þetta, tókst Golden Gate brúin einstaklega vel og er í dag þekkt sem táknmynd fyrir getu mannsins og bjartsýni. Bókin The Gate, sem kom út 1986, eftir San Franciscobúann John Van Der Zee byrjar á orðunum „Þessi bók var samin af mörgum, en ekki bara af einni manneskju.“ Í bókinni er sagan öll sögð og þar er dregið fram mikilvægt framlag Charles Ellis sem var svo loks viðurkennt á 75 ára afmæli brúarinnar þegar hann fékk sitt eigið skilti við brúnna.

(Mynd tekin af: http://news.asce.org)
Þegar Joseph Strauss samdi við þekktan bankastjóra í San Francisco um fjármögnun brúarinnar spurði sá síðarnefni hversu lengi brúin mundi endast. „Hún mun endast að eilífu“ var svarið frá skáldinu og athafnamanninum Strauss. Hann hefur sjálfsagt vonast til þess að brúin gerði hann ódauðlegan og það gekk vissulega eftir en í mínum huga er brúin fyrst og fremst minnisvarði um það hvað samvinna manna með ólíka hæfileika getur leitt af sér þrátt fyrir mannlega breiskleika. Þegar ég horfi á Golden Gate brúnna verður mér alltaf hugsað til hógværa stærðfræðingsins sem vildi umfram allt vanda til verka.




Comments