top of page

Margbreytileiki mannlegrar tilveru: Sögur af transkonum í Bandaríkjunum

Updated: Oct 3, 2018

„Mér líður eins og ég sé alltaf með heimþrá, ég finn fyrir þessum stöðuga sársauka sem hverfur aðeins ef fólk sér mig eins og ég er, sem konu. Heimþráin, sársaukinn, ágerist bara.“ Þannig útskýrði transaktívistinn Sarah Mcbride tilfinningar sínar fyrir foreldrum sínum þegar hún sagði þeim að hún væri transkona. Hún hefur gengið í gegnum ýmislegt þrátt fyrir að vera aðeins 27 ára og nýlega gaf hún út bókina Morgundagurinn verður öðruvísi: Ást, missir og baráttan fyrir réttindum transfólks þar sem hún lýsir lífi sínu, ástinni og missinum en hún missti eiginmann sinn úr krabbameini aðeins fjórum dögum eftir brúðkaup þeirra. Sarah er ein af mörgum sem stigið hafa fram og sagt sögu sína í þeim tilgangi að berjast fyrir réttindum transfólks hér í Bandaríkjunum. Hún segir sjálf í bókinni að það skipti miklu máli að fólk sjái og kynnist persónunum á bak við málefnið þannig að fólk átti sig á því að transfólk er bara venjulegar manneskjur rétt eins og allir aðrir.


Þrátt fyrir andrúmsloft afturhalds hér og víða um heim þá held ég að ekkert fái stöðvað þær framfarir sem átt hafa sér stað í málefnum transfólks í hinum vestræna heimi á undanförnum árum. Ég ætla að segja ykkur sögu þriggja transkvenna sem endurspegla það hvað tímarnir hafa breyst. Rétt er að taka fram að mér er málið skylt því ég er móðir ungrar transkonu og skrifa þessa grein í þeim tilgangi að efla skilning á málefnum transfólks.

ree

Fjöldi fullorðinna sem skilgreinir sig sem transmanneskjur í Bandaríkjunum er samkvæmt rannsókn Williams stofnunarinnar við Kaliforníuháskóla í Los Angeles áætlaður um það bil 1,4 milljónir eða um 0,6% af heildarfjölda fullorðins fólks. Ef samsvarandi hlutfall ætti við á Íslandi væru á landinu um það bil 2.000 fullorðnar transmanneskjur. Fleiri og fleiri transmanneskjur hafa á undanförnum árum sagt sögu sína opinberlega hér í Bandaríkunum og það er afar mikilvægt til að auka skilning og efla meðvitund um málefni þessa hóps. Það er samt gott að hafa í huga að við erum öll ólík og sögur transfólks eru því eins mismunandi og þær eru margar.


Marci Bowers var fyrsta opinbera transkonan til að framkvæma kynstaðfestingaraðgerðir hér í Bandaríkjunum. Hún hefur á sínum starfsferli gert fjölda aðgerða, bæði á transkonum og transkörlum. Hún er vinsæll læknir á sínu sviði og nú er um þriggja ára biðtími eftir að komast til hennar í slíka aðgerð. Marci hefur komið fram í ýmsum þáttum um málefni transfólks og þar á meðal í þætti Oprah Winfrey þar sem hún segist muna eftir tilfinningum sem tengdust því að vera trans alveg frá því hún var fjögurra eða fimm ára gömul. Hún kom þó seint út úr skápnum, enda aðrir tímar, og þá var hún orðin virtur læknir í Seattle, gift og átti þrjú börn. Hún er reyndar ennþá gift sömu konunni en þó einungis á pappírunum. Marci lýsir í Ted spjalli því hvernig hún reyndi eins og hún gat að sætta sig við sitt hlutskipti, hún tók karlmannshlutverkið alla leið, var í karlaklúbbum, spilaði golf með strákunum og gerði allt sem búist var við af karlmanni í hennar stöðu en um leið hafði „sál hennar verið að rotna innan frá“ eins og hún orðar það sjálf. Hún þurfti því að koma út úr skápnum til þess hreinlega að lifa af. Árið 2003 flutti Marci til Trinidad í Colorado og starfaði þar með Stanley Biber, sem kallaður hefur verið faðir kynstaðfestingaraðgerða í Bandaríkjunum, og tók síðar við þeirri stofu. Árið 2010 flutti hún aftur til Vesturstrandarinnar og hefur verið hér síðan. Á undanförnum árum hefur hún einnig sinnt uppbyggingaraðgerðum á kynfærum kvenna sem hafa verið umskornar og hefur m.a. ferðast til Afríku í því skyni. Hún ferðast einnig víðsvegar um heiminn til að miðla þekkingu sinni og reynslu til annarra lækna og heilbrigðisstarfsfólks.


Sarha Mcbride fæddist árið 1990 í Delawere fylki og fékk ung að árum mikinn áhuga á pólitík. Foreldrar hennar voru vel stæðir og hún átti góða æsku þrátt fyrir að hafa alltaf vitað að hún væri öðruvísi en aðrir. Hún vissi þó ekki nákvæmlega hvernig hún var öðruvísi en þegar hún var mjög ung lék hún sér stundum við stelpurnar í götunni og fékk þá að klæða sig í kjóla af þeim. Halloween var líka alltaf í miklu uppáhaldi því þá gat hún klætt sig eins og hún vildi. Eitt kvöldið voru hún og mamma hennar að horfa saman á sjónvarpsþátt þar sem ein persónan var transgender. Það var þá sem Sarah áttaði sig á því að það var til fólk eins og hún, hún vissi allt í einu hvers vegna hún var öðruvísi. Í sjónvarpsþættinum var gert grín að þessum einstaklingi og Sarah meðtók að það væri ekki æskilegt að vera transgender. Henni gekk vel í skóla, átti marga vini og þegar hún varð eldri fór hún að vinna mikið að félagsstörfum og í kringum pólitíkina í sínu heimafylki, vann meðal annars fyrir ríkisstjórann og einnig fyrir Beau Biden, son Joe Biden. Hún kom ekki út úr skápnum fyrr en hún var komin í háskóla í Washington, þá gat hún ekki lengur leynt því hver hún var. Hún segist alla tíð hafa viljað að foreldrar hennar væru stoltir af sér og hún hélt að ef hún gerði bara nógu mikið gott fyrir samfélagið í gegnum félagsmálin og pólitíkina þá gæti hún kannski lifað við það að vera transmanneskja í skápnum en svo kom að því að hún gat ekki meir. Hún var formaður nemendafélagssins þegar hún kom út og hún fékk mjög góðar mótttökur, eitthvað sem hún átti ekki von á. Eftir námið varð hún lærlingur í Hvíta húsinu og hún kynntist fljótlega ungum transmanni, lögfræðingi sem vann fyrir hagsmunasamtök sem berjast fyrir réttindum transfólk í Bandaríkjunum. Þau fóru að búa saman, Sarah fór að vinna fyrir sömu samtök og lífið blasti við unga parinu. Skjótt skipast veður í lofti og kærastinn greindist með krabbamein sem dró hann til dauða á skömmum tíma en þau náðu að gifta sig fjórum dögum áður en hann lést. Sarah vinnur nú fyrir mannréttindasamtökin Human Right Campain í Washington. Hún var stuðningsmaður Hillary Clinton í foresetakosningunum 2016 og flutti ræðu þegar Hillary var útnend sem frambjóðandi Demókrataflokksins. Hún var fyrsti transeinstaklingurinn til að flytja ræðu á slíku þingi hér í Bandaríkjunum.


Jazz Jennings er ung transkona sem vakti fyrst athygli þegar Barbara Walters tók við hana viðtal í þáttunum 20/20 árið 2007, en þá var Jazz aðeins sjö ára. Jazz segir í viðtali við Time að hún hafi alltaf vitað að hún væri stelpa og furðaði sig mest á því af hverju aðrir töldu hana vera strák. Hún vildi vera í fötum af eldri systur sinni og var leyft það heima en mamma hennar klæddi hana í strákaföt þegar þær fóru út og þá öskraði sú litla og grét og segist muna eftir niðurlægingartilfinningunni sem því fylgdi. Fljótlega áttuðu foreldrarnir sig á því að það eina rétt í stöðunni væri að leyfa litlu stelpunni þeirra að vera hún sjálf, alltaf og alls staðar. Jazz hefur, að eigin sögn, átt nokkuð venjulega æsku þó að hún og fjölskylda hennar hafi verið mikið í sviðsljósinu, sérstaklega í seinni tíð en hún hefur verið með sinn eigin raunveruleikasjónvarpsþátt sem kallast I´m Jazz. Hún gekk í skóla sem stelpa, eignaðist góða vini, vel gekk að breyta kyni í vegabréfinu og henni hefur gengið vel í því sem hún hefur tekið sér fyrir hendur. Helsta baráttan, fyrir utan salernismálin, var að fá að spila fótbolta með stelpunum og þurftu foreldrar hennar að leita alla leið til Bandaríska fótboltasambandsins til þess að fá það í gegn og þar með ryðja brautina fyrir aðra. Jazz er núna 17 ára, hún hefur verið á lyfjum bæði til að stöðva kynþroska og svo seinna á estrogeni og næsta skrefið er kynstaðfestingaraðgerð og það hjá engri annarri en Marci Bowers. Jazz var á á lista Time Magazin yfir áhrifamestu unglinga Bandaríkjanna árið 2015, hún hefur komið fram í ótal þáttum og viðtölum og fjölskyldan hennar rekur samtökin TransKids Purple Rainbow sem hefur það að markmiði að bæta líf transbarna m.a. með fræðslu og framlögum til rannsókna. Saga Jazz Jennings er eins og hún segir sjálf í bókinni Beign Jazz: My life as a transgender teen saga transstelpu í Bandaríkjunum sem býr við góðar aðstæður, bæði fjölskyldu- og fjárhagslega sem er því miður ekki raunin með alla.


Saga þessara þriggja kvennar er ólík og er lýsandi fyrir þá þróun sem orðið hefur í málefnum transfólks. Þekkingin hefur aukist, transfólk er sýnilegra í samfélaginu og fólk getur því komið yngra út úr skápnum og verið það sjálft. Það tók Marci Bowers hálfa ævina að taka það skref, Sarah kom út þegar hún var um tvítugt og Jazz hefur alltaf fengið að vera hún sjálf. Þrátt fyrir þetta er enn á brattan að sækja, ofbeldi hefur aukist gagnvart transfólki hér og sérstaklega eiga svartar transkonur undir högg að sækja. Aðgangur að heilbrigðisþjónustu er einnig mjög misjafn. Konurnar þrjár sem hér er fjallað um eru hvítar, vel settar konur með sterkt bakland og þeirra saga er því önnur er margra. Þrátt fyrir framfarir er því enn mikið verk að vinna bæði í Bandaríkjunum sem annar staðar.


Ísland hefur ekki staðið sig nógu vel hvað varðar LGBTI réttindi sé miðað við þær þjóðir sem við viljum bera okkur saman við eins og sjá má á eftirfarandi mynd sem fengin er af vef Rainbow Europe:

ree

Það var því ánægjulegt að sækja ráðstefnu sem Samtökin 78, með Sigríði Birnu Valsdóttur í broddi fylkingar, héldu á dögunum um málefni transbarna og ungmenna. Þetta var áhugaverð ráðstefna sem hægt er að hlusta á á facebooksíðu samtakanna. Þar talaði heilbrigðisráðherra um að verið væri að undirbúa stjórnarfrumvarp um breytingar á lögum um málefni transfólks í átt við það sem best gerist í heiminum. Þetta eru góðar fréttir sem vonandi ganga eftir. Það eru einnig góðar fréttir að núna í vor mun Alþjóðaheilbrigðisstofnunin (WHO) gefa frá sér nýja sjúkdómaflokkun, en hún hefur ekki verið endurskoðuð síðan 1990. Í henni verður það sem áður var kallað transsexualism ekki lengur flokkað sem geðsjúkdómur en fer í nýjan flokk sem kallast ástand sem tengist kynheilsu. Sumir segja að rétt hefði verið að ganga skrefinu lengra og taka þennan lið alveg út úr flokkuninni en þeir sem vildu halda honum inni töldu það nauðsynlegt vegna þess að flokkunin er undirstaða aðgengis að heilbrigðisþjónustu víða um heim. Vonandi leiðir þetta til frekari framfara því margbreytileiki mannlegrar tilveru er einfaldlega til staðar.

1 Comment


Fróðleg og skemmtileg grein :-)


Like
  • Utanlands á Facebook

Allur réttur áskilinn © 2018 utanlands.is. Keyrt á wix.com

bottom of page