Rauður pakki með peningum
- Elsa Ævarsdóttir

- Feb 7, 2018
- 3 min read
Updated: Oct 3, 2018
Dreifing spánnýrra peningaseðla er hafin í bönkum hér í Singapúr. Í aðdraganda kínversku áramótanna ár hvert er hægt að taka út nýja og ,,svo gott sem nýja” seðla í sérstökum hraðbönkum sem settir eru upp af þessu tilefni víðsvegar um borgina. Yfirleitt myndast langar raðir við vélarnar því meiri gæfa á að fylgja nýjum seðlum en notuðum. Peningagjafir eru órjúfanlegur hluti af kínversku áramótahátíðinni og eru afhentar í rauðum umslögum sem kallast hong bao.

Þegar hong bao er afhent hljómar oftast kveðjan gong xi fa cai, sem á íslensku mætti þýða sem óskir um auðsæld á nýju ári. Ekki þykir kurteisi að sýna of mikla eftirvæntingu þegar tekið er á móti umslaginu en þagmælska um innihaldið er til vitnis um gott uppeldi. Umslagið er lokað og ekki er við hæfi að opna það að gefandanum, né nokkrum öðrum viðstöddum. Sé slíkt gert þykir það benda til þess að viðtakandinn hafi aðeins áhuga á peningunum en ekki hinum góðu óskum. Ekki á að skipta máli hve upphæðin er há, kveðjan færir viðtakandanum blessun og óskir um gæfu.
Í raun er þó snúið að vita hvaða upphæð á heima í hverju umslagi og enginn vill virðast nískur. Upphæðin tekur mið af skyldleika og því hversu sterk tengslin eru, en reglurnar eru ekki mjög fastmótaðar og sumir segja að það sé sönn list að kunna að gefa hong bao. Á hverju ári koma singapúrskir fjölmiðlar til hjálpar og birta umfjallanir um hvað sé við hæfi að setja mikinn pening í rauðu umslögin.
Upphaflega var rauði pakkinn tákn um góðar óskir og blessun til barna. En samkvæmt kínverskri hefð markar aldur ekki upphaf fullorðinsára heldur hjónaband. Þannig fá allir sem ekki eru giftir hong bao á kínverska nýárinu. Þótt siðurinn sé mest áberandi í kringum kínversku áramótin hefur siðurinn færst yfir á fleiri hátíðleg tækifæri, svo sem brúðkaup, útskriftir og afmæli. Þá þekkist það að atvinnurekendur gefi launþegum sínum hong bao sem áramótabónus ofan á laun. Stundum er jafnvel um heil mánaðarlaun að ræða, ekki ósvipað og þegar íslenskir launagreiðendur borga út þrettánda mánuðinn. Það er einnig algengt að sjá fólk gauka rauðum umslögum að fólki í þjónustu á þessum tíma árs. Dæmi um slíkt er hárgreiðslufólk sem fær sem nemur einni klippingu í bónus frá fastakúnnum og einnig er algengt að íbúar í blokkum gefi húsvörðum og öðru starfsfólki litla upphæð í þakklætisskyni fyrir vel unnin störf á árinu.
Ekki er aðeins mikilvægt að íhuga vel upphæðina sem fer í umslagið, heldur skiptir miklu máli að hún innihaldi heillavænlegar tölur. Almennt gildir að gott er að gefa upphæð sem inniheldur heillatöluna átta. Sléttar tölur eru góðar en ekki þykir heppilegt að upphæðin innihaldi töluna fjóra þar sem fjórir á kínversku hljómar nánast alveg eins og orðið dauði.
Rauði liturinn á gjöfinni er tákn fyrir gæfu, góða tilveru og hamingju. Mikið úrval er af rauðum umslögum, oft afar skrautlegum, og fyrir þá sem ekki geta lesið kínversk tákn er vissara að kaupa umslag með viðeigandi áletrun. Það væri slæmt að mæta í brúðkaup með nýárskveðju.
Þrátt fyrir nútímalegt yfirbragð Singapúr eru margir heimamenn fastheldnir á gamla siði og láta það ekki trufla sig að bíða í löngum röðum eftir nýjum seðlum til að gefa ættingjum og vinum á kínversku áramótunum. Frændur þeirra á meginlandi Kína eru oft óþolinmóðari og nýjungagjarnari og þaðan berast fréttir af sívaxandi vinsældum stafrænna hong bao. Þá eru peningagjafirnar sendar manna á milli með þartilgerðum smáforritum í símanum. En hver sem framtíð þessa kínverska siðar verður, þá þykir mér ekki ólíklegt að verslunarmenn víðar um heiminn uppgötvi tækifærin sem felast í rauðu umslögunum. Innihaldið flæðir nefnilega fljótt aftur út í samfélagið og hefur í för með sér aukna neyslu.

(Mynd: yahoo.com.sg)





Comments