Kínversk stjörnuspeki
- Með kveðju frá Kína
- Oct 25, 2013
- 3 min read
Updated: Feb 21, 2019
Stjörnuspeki er samofin kínverskri menningu og það virðist enn skipta Kínverja máli að eignast barn í réttu stjörnumerki. Það var til dæmis mjög vinsælt að eiga börn í fyrra, á ári drekans, enda hafa drekar haft mikla þýðingu í kínverskri menningu og þykja sterkt merki.
Kínversku stjörnumerkin eru tólf; rottan, uxinn, tígrisdýrið, kanínan, drekinn, snákurinn, hesturinn, kindin, apinn, haninn, hundurinn og svínið. Hvert stjörnumerki nær yfir tólf mánuði og er þá miðað við gamla kínverska dagatalið þar sem nýtt ár byrjar á tímabilinu frá janúarlokum og fram í miðjan febrúar.

Sagan segir að endur fyrir löngu hafi Jaðakeisarinn ákveðið að dýrin yrði tákn á dagatalinu og jafnframt fyrirskipað að þau fyrstu sem myndu mæta á ákveðnum stað og tíma yrðu valin. Kötturinn og rottan voru á þessum tíma góðir vinir og þau ákváðu að verða samferða morguninn eftir. Kötturinn var morgunsvæfur og bað vin sinn rottuna um að vekja sig í bítið en því gleymdi rottan og hélt ein af stað. Á leiðinni hitti hún uxann, hestinn og fleiri dýr sem komust hraðar yfir en hún. Þá datt henni gott ráð í hug, hún fékk uxann til að bera sig á bakinu og í staðinn söng hún fyrir hann. Þau voru fljót í förum og þegar þau voru alveg að komast í mark hoppaði rottan af höfði uxans og varð því fyrsta merkið í dýrahringnum. Kötturinn svaf yfir sig og missti af öllu saman. Síðan hafa kettir hatað mýs og rottur. Margar útgáfur eru til af þessari sögu hér í Kína.
Núna er ár snáksins og þau börn sem fæðast frá 10. febrúar 2013 til 30. janúar 2014 eru snákar, nánar tiltekið vatnasnákar því grunnefnin fimm (elementin); eldur, jörð, málmur, vatn og viður tengjast þessu líka. Samkvæmt stjörnuspekinni eiga dýrin að hafa áhrif á persónuleika manna og efnin fimm hafa þar einnig sín áhrif. Snákar hafa ákveðin persónueinkenni, en vatnasnákur er öðruvísi en jarðsnákur og svo framvegis.

Við spurðum unga menntaða konu hér í Shanghai út í stjörnuspekina og þýðingu hennar í daglegu lífi. Hún sagði stjörnuspekina snúast um svo miklu meira en dýrahringinn. Hún sagði að hjá mörgum væri hún mikilvægur hluti af lífinu og þannig væri það til dæmis hjá mömmu hennar. Hún sagði mömmu sína leita reglulega til taomunks til að fá ráðleggingar, sérstaklega fyrir stóra viðburði í fjölskyldunni eins og giftingu, fæðingu og fleira. Munkurinn notar þá stjörnuspekina til að reikna út ýmsa hluti og gefa ráðleggingar. Þegar unga konan varð ófrísk sagði mamma hennar að munkurinn hefði reiknað út að þetta yrði stelpa, sem svo gekk eftir. Margir foreldrar biðja slíka munka um ráðleggingar áður en börn þeirra ganga í hjónaband. Þá reiknar munkurinn út frá stjörnuspekinni og fleiru hvernig tilvonandi par á saman, tilgreinir veikleika og styrkleika. Foreldrarnir miðla svo þessum fróðleik áfram til verðandi hjóna. Ef parið er talið eiga vel saman eru allir ánægðir en ef ekki þá þarf að fara eftir ýmsum ráðleggingum, en það þýðir ekki að sambandið muni ekki ganga. Unga konan sagðist ekki trúa á þetta sjálf en tæki samt mark á því sem mamma hennar segði í þessu sambandi og að stundum væri bara heilmikið til í því.
Tökum nú nokkur dæmi af því hvernig merkin og grunnefnin eru túlkuð. Við ákváðum að fjalla hér um Íslendinga og Kínverja, svona að gamni, þó svo að stjörnuspekin eigi auðvitað að segja til um eiginleika einstaklinga fremur en eiginleika heillar þjóðar. Okkur er vonandi fyrirgefið þó við togum þetta aðeins og teygjum.
Lýðveldið Ísland er viðarapi. Viðarapar eru heillandi og góðir í samskiptum og eru framsýnir frumkvöðlar. Þeir hafa gott auga fyrir því nýjasta í tísku og eru oft í fararbroddi á því sviði. En allir hafa sína galla og samkvæmt stjörnuspekinni eigum við Íslendingar, viðaraparnir, það til að vera óákveðnir og nýjungagjarnir sem getur orðið þess valdandi að við hlaupum úr einu verkefninu í annað. Við höfum auk þess tilhneigingu til þess að festast í smáatriðum og eigum stundum erfitt með að sjá heildarmyndina!
Kínverjar eru jarðuxar, þar sem Alþýðulýðveldið Kína var stofnað 1. október 1949. Jarðuxar eru jarðbundnir, gera sér grein fyrir takmörkunum sínum og eru yfirleitt sáttir í þeim aðstæðum sem þeir eru í hverju sinni. Þá skortir þó ekki metnað og þeir komast þangað sem þeir vilja, þó að það taki langan tíma. Jarðuxarnir eru hvorki viðkvæmir né tilfinninganæmir en sýna þó nánustu fjölskyldu og vinum ást og umhyggju. Helsti galli jarðuxanna er skortur á sköpunargáfu. Þeir geta því misst af tækifærum og verið svo íhaldssamir og hagsýnir að þeir festast í sama farinu.
Þú getur lesið um þitt merki með því að smella hér.
Til gamans fylgir hér einnig tafla um hvernig störnumerkin passa saman í ástum. Úr töflunni má lesa hvernig merkin eiga saman, þar sem talan einn 1 þýðir að merkin passi illa saman og 2 táknar að merkin eigi frekar illa saman. Talan 5 þýðir að þýðir að merkin eiga vel saman og talan 4 að merkin passi frekar vel saman. Talan 3 þýðir að leggja þurfi vinnu í sambandið.

Yorumlar