Kvenfrelsi í fjöllunum
- Elsa Ævarsdóttir
- Nov 19, 2017
- 5 min read
Updated: Oct 3, 2018
Þegar leiðtogar ríkja í sunnan og austanverðri Asíu koma saman eru konur sjaldséðar. Hvort sem fluttar eru fréttir frá flokksþingi kommúnistaflokksins í Kína eða af heimsóknum vestrænna stjórnmálamanna til Asíuríkja birtast ósjaldan myndir af tveimur körlum að takast í hendur eða af uppstilltum hópi karlmanna í jakkafötum. Af myndunum má lesa að þær eru ekki margar konurnar sem gegna valdamiklum embættum í þessum heimshluta.
Í slíku tíðarfari er hressandi að sitja meðal á annað hundrað kvenna (og örfárra karla) í samkomusal í Singapúr og hlusta á fyrirlestur um samfélag þar ömmurnar hafa æðstu völd og hjónaband hefur enga merkingu. Erindið flytur Choo Waihong sem hefur skrifað bók um kynni sín af því sem hún kýs að kalla Konungsríki kvenna (Kingdom of Woman) og leynist hátt uppi í fjöllum Yunnan héraðs í Kína.

(Myndin er úr bókinni Kingdom of Woman)
Choo Waihong var farsæl í starfi sínu sem viðskiptalögfræðingur í Singapúr þar til dag einn fyrir tíu árum að hún fékk hún nóg af stressinu sem fylgdi því að vera meðeigandi á lögfræðistofu og ákvað að gefa ferilinn upp á bátinn. Skömmu síðar lagði hún af stað í ferðalag á slóðir forfeðra sinna í Kína. Þar heyrði hún fyrst um Mosuo mæðraveldið sem, eins og Choo orðar það sjálf, vakti upp í henni femíníska forvitni. Hvernig gæti annað verið, segir hún til útskýringar, hún sem hafi verið alin upp við hefðbundin kínversk gildi, þar sem synir eru taldir dætrunum æðri, auk þess að hafa um árabil starfað í umhverfi þar sem karlmenn eru ráðandi.
Þegar Choo kom í fyrsta sinn að Lugu vatninu þar sem Mosuo fólkið býr var skammt síðan svæðið hafði verið opnað fyrir ferðamönnum. Hún segist strax hafa heillast af stórbrotinni náttúrunni og goðsögum henni tengdri, svo sem sögum um fjallgyðjuna Gemu sem er æðst guða meðal Mosuo fólksins. Valdaskipanin í mæðraveldinu vakti forvitni hennar og til að útskýra hana fyrir fundargestum notar Choo viðskiptamál. Hún líkir Mosuo ömmunum við forstjóra (CEO) sem allir þurfa að hlýða og ömmubræðrum við framkvæmdastjóra (COO) sem hafa umsjón með daglegum rekstri. En amman er ekki aðeins yfirmaður í fjölskyldunni heldur erfist nafn hennar í beinan kvenlegg. Eins og Choo bendir á gætu hefðir Mosuo fólksins ekki verið ólíkari hefðbundinni fjölskyldugerð í Kínaveldi.
Heimsókn Choo Waihong að Lugu vatninu fyrir tíu árum var aðeins sú fyrsta af fjölmörgum. Hún tók miklu ástfóstri við svæðið og segir að í fyrsta sinn á ævinni hafi henni fundist hún hafa verið virt á eigin forsendum, sem kona. Þá hafi hún losnað við þá tilfinningu að þurfa sífellt að vera að berjast fyrir plássi í tilverunni. Meðal Mosuo fólksins hefur Choo eignast góða vini sem hún kallar fjölskyldu sína og látið byggja hús í hefðbundnum stíl þar sem hún eyðir drjúgum tíma á ári hverju.
Choo segir frá því hvernig valdaskipan mæðraveldisins endurspeglast í hefðbundum Mosuo húsum. Þar er svefnstaður ömmunnar helgasta vígið og undirstrikar mikilvægi ættmóðurinnar. Í húsinu skipta tvær burðarstoðir upp meginrýminu, önnur súlan er helguð konum, en hin körlum og sú sem helguð er kvenþjóðinni er ávallt veglegri. Amman, systkini hennar og allir afkomendur í kvenlegg, bæði konur og karlar, búa undir sama þaki. Allar fullorðnar konur í húsinu hafa sérherbergi og eru þau kölluð blómaherbergin. Karlmennirnir sofa aftir á móti í sameiginlegum vistarverum.
Hjónabönd þekkjast ekki meðal Mosuo fólksins heldur eru það konurnar sem velja sér ástmenn eða axia. Í skjóli nætur er karlinum boðið inn í blómaherbergi konunnar og snýr hann aftur til síns heima áður en nýr dagur rís. Engin takmörk eru á því hversu marga axia kona getur átt um ævina og þegar börn koma til sögunnar skiptir faðernið ekki máli. Barnið tilheyrir fjölskyldu móðurinnar og það eru karlkyns ættingjar á heimilinu sem sinna föðurhlutverkinu. Feðurnir eru ekki hluti af fjölskyldu móður og barns og misjafnt er hversu mikil afskipti þeirra eru af uppeldi barna sinna. Samkvæmt Choo eiga sum börn feður sem aðeins minna á sig með gjöfum á afmælis- og hátíðisdögum, aðrir eru í töluverðum samskiptum við börn sín, sérstaklega ef sambandið við móðurina varir í lengri tíma, en mörg Mosuo börn eru aldrei feðruð.
Choo segir að Mosuo karlarnir taki sér tíma til að sinna útlitinu enda vilji þeir ganga í augu kvennanna. En karlarnir gegna einnig mörgum hefðbundnari skylduverkum í samfélaginu og eru sum þeirra það sem við myndum kalla dæmigerð karlmannsverk, svo sem veiðimennska og slátrun. Sama gildir um útfararstörf en samkvæmt þjóðtrú eru konur fulltrúar lífsins og ljóssins og mega ekki snerta við dauðanum. Mosuo karlar sinna einnig störfum inni á heimilinu og Choo, sem alin er upp á heimili þar sem karlmönnunum í fjölskyldunni fannst barnapössun ekki í sínum verkahring, fannst merkilegt að sjá hvað þeir voru miklir þátttakendur í uppeldi barnanna.
Þegar Choo hefur lokið skemmtilegum fyrirlestri um kynni sín af Mosuo fólkinu er opnað fyrir spurningar. Spurt er hvort konur í mæðraveldi komi betur fram við karlmenn í samanburði við karlasamfélög þar sem konur eru oft settar skör lægra? Choo segir að henni finnist að Mosuo konur virði bæði kynin þótt fæðingu dætra sé fagnað meira þar sem þær bera áfram arf kynslóðanna. Choo segir að heimilisstörf og erfiðisvinna sé metin að jöfnu í Mosuo samfélaginu, annað þykir ekki merkilegra en hitt, enda stuðli hvorutveggja að því að viðhalda fjölskyldunni. Hún gantast með að henni finnist Mosuo karlarnir hafa heilmikinn tíma til að leika sér. Þá fari þeir til dæmis oft saman út í náttúruna þar sem þeir stunda veiði og eldi síðan bráðina í sameiginegri máltíð þar sem konur koma hvergi nærri. Eins og konurnar njóti þeir frelsis í ástarmálum og megi eiga eins margar ástkonur og þeim sýnist.
Þegar Choo er spurð hvort mæðraveldið sé hin eina sanna Útópía kvenna svarar hún af varfærni og segir að henni finnist margt í mæðraveldinu skynsamlegt og til eftirbreytni. Sem dæmi nefnir hún að erfingjar séu ekki valdir út frá fæðingardeginum einum saman, heldur velji amman þann erfingja sem henni þykir hæfastur til að viðhalda fjölskyldunafninu. Það sé ekki nóg að vera elsta dóttir, heldur skipta gáfur og hæfileikar til að fara með mannaráð miklu máli. Choo bendir á að þetta sé í mikilli andstöðu við kínverska hefð þar sem elsti sonur er óumdeilanlegur erfingi sama hvaða mannkosti hann hafi til að bera. Yfirhöfuð finnst Choo við geta lært margt af mæðraveldinu en viðurkennir að henni finnist ósennilegt að áhrif þess verði mikil.
Eftir lestur bókarinnar eru efasemdir Choo Waihong um að siðir Mosuo mæðraveldisins eigi ekki eftir að hafa mikil áhrif í stórveldinu Kína vel skiljanlegar. Í þágu nútímatækni og túrisma hefur landfræðilega einangrunin sem hefur viðhaldið fornum siðum og tungu Mosuo fólksins verið rofin. Þar sem áður voru hrjóstugir fjallvegir liggur nú hraðbraut til Lugu vatns og þar hefur verið byggður alþjóðlegur flugvöllur. Náttúrufegurðin og sögurnar af óvenjulegum siðum Mosuo fólksins laðar til sín æ fleiri ferðamenn en á sama tíma aðlagast unga Mosuo fólkið kínverskum siðum, tungu og tækni. Mosuo fólkið starfar nú flest við ferðaþjónustu og í bókarlok kemur fram að hefðbundin hjónabönd (og skilnaðir) verði sífellt algengari.
En sögurnar af mæðraveldinu geta blásið konum von í brjóst og frásögn Choo Waihong hafði augljóslega góð áhrif á afar fjölþjóðlegan áheyrendahópinn í Singapúr. Þar sem Ísland trónir ávallt í toppsætunum í mælingum á jafnrétti kynjanna í heiminum gat ég ekki varist þeirri hugsun að ég nyti einna mestra réttinda af öllum þeim konum sem í salnum sátu. Og í því samhengi er skemmtileg sagan sem bókin segir af því þegar Choo lét gera erfðaefnisrannsókn á nokkrum vinum sínum við Lugu vatn. Kom í ljós að karlinn gat rakið ættir sínar til norrænna víkinga sem voru uppi á svipuðum tíma og landnám varð á Íslandi.
Kommentare