top of page

Bruninn mikli

Updated: Oct 3, 2018

Seint í sumar ákváðum við hjónin að verja afmælishelginni minni í vínhéruðunum hér fyrir norðan, fylgjast með Safeway open golfmótinu, heimsækja vínekrur og borða góðan mat. Napa og Sonoma eru einstakir staðir að heimsækja og við höfum oft farið þangað í dags- og helgarferðir. Nú höfðum við augastað á Healdsburg, rétt norðan við borgina Santa Rosa. Þau hótel sem við skoðuðum voru þó öll uppbókuð þessa helgi og við ákváðum í staðinn að verja helginni í Seattle. Við flugum heim til San Jose á sunnudagskvöldið og ég dáðist að náttúrufegurðinni við San Francisco flóann þegar vélin var að lenda í fallegu veðri og góðu skyggni.


Á mánudagsmorgni þegar við vöknuðum var ljóst að eitthvað mikið var að, úti var mengun og mikil brunalykt í loftinu. Við lestur fréttamiðla kom í ljós að miklir skógareldar voru í vínhéruðunum fallegu sem við höfðum ætlað að heimsækja og mikla mengun af völdum eldsins lagði yfir flóann allan. Við, eftir fjögur ár í Kína, erum sérfræðingar í mengun og héldum satt að segja að við værum laus við þann óskemmtilega hluta tilverunnar þar, að vakna og gá að mælingum á loftgæðum og velta fyrir sér grímum og lofthreinsitækjum. Nú erum við að rifja upp þessa mikilvægu þekkingu, sérstaklega þar sem við erum með ungabarn á heimilinu. Hér eru nú allir gluggar lokaðir og slökkt á loftkælingunni, sem betur fer er hitastigið úti skaplegt og við að mestu inni við.


Skógareldar eru algengir á haustin í Kaliforníu, eftir heit og þurr sumrin og nýliðið sumar var einmitt óvenju heitt, svo heitt að hitamet voru slegin. Á þessum tíma árs blása gjarnan svokallaðir djöflavindar úr norðaustri í stað vestlægra átta sem eru ríkjandi yfir sumarið. Djöflavindarnir geta verið mjög hvassir og þeir valda því að ef eldur kviknar þá breiðist hann út með ógnarhraða, rétt eins og þegar blásið er í glæður. Þannig voru aðstæður einmitt á svæðinu þessa örlagaríku nótt. Til staðar var mikill eldsmatur því eftir langvarandi þurrka rigndi mikið í vetur, raunar svo mikið að flóð urðu víða um fylkið og vatnsskorturinn sem verið hafði viðvarandi um árabil var úr sögunni eins og hendi væri veifað. Ekkert er enn staðfest um upprunna eldanna en háværustu tilgáturnar eru að blossar frá rafmagnslínum, sem eru of nálægt gróðri eða gróður sem fellur eða fýkur á línur, gætu verið sökudólgurinn og það kæmi mér ekki á óvart. Rafmagnslínur hér virðast víða í ólestri og þær eru mikið lýti á fallegri náttúrunni í vínhéruðunum.


Nú eru þessir eldar orðnir þeir mannskæðustu sem sögur fara af hér í fylkinu, 40 eru látnir og enn er margra saknað. Heilu hverfin í Santa Rosa brunnu til kaldra kola. Flestir þeirra látnu eru eldri borgarar sem náðu ekki að flýja heimili sín, því eldurinn breiddist út með slíkum ógnarhraða. Dagblöð og netmiðlar flytja nú sorglegar sögur þeirra sem látist hafa og í þeim hópi eru bæði heimamenn og ferðamenn.

Eldri hjón frá suður hluta fylkisins höfðu leigt sér hús í Santa Rosa og dvalið þar með fjölskyldu sinni í fríi og notið þess sem vínhéruðin hafa upp á að bjóða í nokkra daga. Í húsinu voru hjónin, dóttir þeirra, tengdasonur og barnabarn. Tengdasonurinn vaknaði aðfaranótt mánudags og leit út um gluggann og sá eldkúlu lenda í garðinum sem á örskotsstundu breyttist í eldhaf. Hann vakti alla og fjöldkyldan þaut út í bílana, gömlu hjónin í sinn bíl. Yngri hjónin keyrðu gegnum eldhafið og stöðvuðu þegar þau voru komin í gegnum það versta en ekkert bólaði á bíl foreldranna. Tengdasonurinn freistaði þess að keyra aftur inn í eldinn en varð frá að hverfa. Fallið tré hafði heft ferðir eldri hjónanna og þau ákveðið að snúa aftur í húsið og komu sér fyrir í sundlauginni á lóðinni. Þar voru þau á meðan eldurinn eirði engu og brenndi allt í kring. Konan lést í örmum manns síns, hún var með veik lungu en hann lifði hörmungarnar af. Í fréttinni kom fram að hjónin ferðuðust mikið og væru t.d. nýlega búin að vera á Íslandi.


Eignatjónið hefur verið gífurlegt, nýjustu tölur segja að 5700 byggingar hafi eyðilagst í eldinum. Þessi mynd af litlu stúlkunni sem fékk hjól í afmælisgjöf þann 6. október hefur vakið mikla athygli. Á myndinni stendur hún við hjólið sitt allt brunnið og alger eyðilegging allt í kring.


ree

(Mynd frá sfgate.com)

Hér má sjá mynd af innganginum að Chateau St. Jean vínbúgarðinum, fyrir og eftir brunann. Þetta er fyrsti vínklúbburinn sem við gengum í og þangað förum við gjarnan með gesti.


ree

(Myndir frá sfgate.com)

Skjótt skipast veður í lofti, aldrei hafði manni komið það til hugar að nokkrum klukkutímum eftir flugið yfir flóann stæðu vínhéruðin í ljósum logum. Við erum langt frá eldinum og því ekki í neinni hættu og öllu vön hvað slæm loftgæði varðar en því er ekki að neita að dagarnir eru miserfiðir, allt eftir því hvernig vindurinn blæs.

Comments


  • Utanlands á Facebook

Allur réttur áskilinn © 2018 utanlands.is. Keyrt á wix.com

bottom of page